Forvarnir í forgang - annar hluti

22 baldur 600x800Baldur Pálsson skrifar

Í fyrri grein um forvarnir var fjallað um mikilvægi á gerð hættumats almannavarna og forgangsröðun viðbragðsáætlana byggðu á hættumatinu. Hér verður farið nokkrum orðum um hvernig við getum byggt upp innra eftirlit í stofnunum sveitarfélagsins sem varða slysavarnir og eldvarnir með öruggum og skilvirkum hætti og einnig hvernig hægt er að koma upp viðbragðsteymum í hverjum byggðakjarna ef upp koma meiriháttar ógnanir og hjálp ekki líkleg til að koma utan frá.


Forvarnarfulltrúar í öllum hverfum
Í reglugerð um eldvarnir og eldvarnaeftirlit nr.723/2017 er kveðið á um innra eftirlit í fyrirtækjum og stofnunum og á því ákvæði byggir svo nefnt „Eldvarnabandalag“, sem stofnað var árið 2010 og er samstarf eftirtaldra aðila: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sjóvá almennar tryggingar hf, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM h.f., Vátryggingafélag Íslands og Vörður tryggingar hf. Eldvarnabandalagið hefur útbúið einfalt skráningarkerfi til að halda utan um eigið eldvarnaeftirlit fyrir fyrirtæki og stofnanir og Brunavarnir á Austurlandi fóru í samstarf við Eldvarnabandalagið um eins árs átaksverkefni í að koma upp eldvarnafulltrúum í öllum stofnunum á starfsvæði Brunavarna á Austurlandi en eftir að verkefninu lauk þá virtist verkefnið deyja út.

Nýtt byggt á eldra
Koma þarf upp forvarnafulltrúum í öllum byggðarlögum sem byggir á aðferðum Eldvarnabandalagsins að viðbættum almennum slysavörnum en með því kemur fram tölfræði sem hægt er að rýna til gagns og nýta til betri árangurs auk þess sem verkefnið mun stórlétta á eldvarnaeftirliti slökkviliðsins.

Skýrar boðleiðir
Ef forvarnafulltrúi hefur við mánaðarlegt eftirlit séð bilun til dæmis í eldvarnabúnaði þá skráir hann það og um leið hvenær áætlað er að úrbótum ljúki. Ef úrbótum er ekki sinnt þá sendir forvarnafulltrúinn erindið til eldvarnaeftirlits slökkviliðsins en þar eru fyrir hendi þau úrræði sem duga til að úrbótum sé sinnt en best er að umsjónarfulltrúi fasteigna lagfæri strax þegar um lífsbjargandi búnað er að tefla. Klárt þarf að vera hvert úrbótum um slysavarnir verður vísað og hvernig þeim verður forgangsraðað.

Vel að merkja
Samræma þarf merkingar gatna og húsa í öllu sveitarfélaginu svo viðbragðsaðilar komist án vandræða að öllum skráðum íbúðum í sveitarfélaginu og þarf ekki að fjölyrða frekar um nauðsyn þess.

Vel skipulagðir viðbragðshópar í öllum byggðakjörnum
Á Seyðisfirði hefur verið vinna í gangi við að móta viðbragðshóp sem bregst við ef vá ber að höndum og þar er mikilvægt að koma því skipulagi á í öllum byggðakjörnum. Hlutverk heimastjórna í sveitarfélaginu þarf að taka mið af þessum hugmyndum og vera leiðandi í umsjón og eftirfylgni þeirra.

Höfundur er fyrrverandi slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Austurlands og skipar 22. sæti Austurlistans. 

 

Nýsköpun á Austurlandi

1 Hildur 600x800Nýverið las ég pistil eftir unga austfirska konu sem dró saman um það bil allt það sem ég hef verið að hugsa um síðustu 6 ár síðan ég hóf fyrst afskipti af sveitarstjórnarmálum.

Við búum í heimi þar sem hröð þróun á sviði tækni og þekkingar hefur átt sér stað. Menntastig er sífellt að hækka á vinnumarkaði og kröfurnar um sérhæfð og áhugaverð störf í takt við það. Ungt fólk getur valið sér búsetu nánast hvar sem er því nú er allur heimurinn undir.

Ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar tilkynnti í byrjun árs að Nýsköpunarmiðstöð Íslands yrði lögð niður um næstu áramót. Enn hefur ekki verið tilkynnt um hvað á að taka við af Nýsköpunarmiðstöð þar sem starfa um 80 manns og flestir á höfuðborgarsvæðinu. Sú stofnun er gott dæmi um hversu mjög hefur hallað á landsbyggðina þar sem er hvað mesta þörfin fyrir stuðning og þekkingu á sviði nýsköpunar og fyrirtækjareksturs. Afraksturinn höfum við meðal annars séð í hlutfalli styrkja sem fara til landsbyggðarinnar.

Á Austurlandi hefur starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar eingöngu verið í mýflugumynd sem vekur undrun þegar rýnt er í fjölbreytileika atvinnuvega hér, tekjuþróun, launamun kynjanna og íbúaþróun sem hefur ekki verið með þeim hætti sem við hefðum óskað og væri æskilegt.

„Í nýju sveitarfélagi verðum við að vera framsýn þegar kemur að nýsköpun og stuðningi við frumkvöðla.”

Við getum gert svo miklu betur á svo mörgum sviðum ef við bara þorum því. Þorum að vera framsækin og hugmyndarík. Þorum að krefja ríkisvaldið um sterkari innviði sem hafa visnað undanfarna áratugi og afhjúpaðist eftirminnilega í óveðri í lok árs 2019. Það er ekki nægilega mikið talað um hversu lítið er eftir af landsbyggðinni í landi þar sem eina byggðastefnan virðist vera “höfuðborgarstefna”. Í Reykjavík hafa verið byggðir upp sterkir innviðir og kröftug fyrirtæki en eftir stendur búseta um það bil 16% landsmanna á landsbyggðinni og innviðir sem eru á köflum óboðlegir.

Nú reynir á ríkisvaldið að sýna vilja í verki og koma á starfsemi nýsköpunar og atvinnumála í samvinnu við sameinað sveitarfélag því fjölbreytt atvinnulíf er undirstaða samfélaga þar sem þykir eftirsóknarvert að búa.

Ungt fjölskyldufólk horfir á vænlega búsetukosti út frá gæðum skólanna, húsnæðismálum, atvinnutækifærum, samgöngum, heilbrigðisþjónustu, menningu og félagslífi.

„Tækifærin til að sækja fram eru ótalmörg og við ætlum að gera sameinað sveitarfélag að framúrskarandi búsetukosti.“

Við erum bjartsýn á tækifærin sem blasa við og munum ótrauð sækja fram en gerum jafnframt kröfu á ríkisvaldið að koma með okkur í þá vegferð!

Því við græðum öll á sterkri höfuðborg og öflugri landsbyggð.

Höfundur, Hildur Þórisdóttir, er forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði og skipar 1. sæti Austurlistans í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðar, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Skógarauðlind Austurlands

5 skuli 600x800Um það bil 40 ár eru nú frá því að lögð voru fyrstu drög að sérstöku skógræktarátaki á Fljótsdalshéraði fyrir atbeina ríkisins og með þátttöku bænda og annarra landeiganda. Verkefnið fékk nafnið Héraðsskógar. Áður hafði verið stofnað til nytjaskógaverkefnis á Upphéraði sem nefndist Fljótsdalsáætlun og hófst með gróðurssetningu árið 1970. Þá eru á svæðinu þjóðskógar og fjöldi skógarteiga skógræktarfélaga ásamt náttúrulegum birkiskógum sem finna má víða um landshlutann.

Margir gera sér ekki grein fyrir hve mikil auðlind er verða til næstu áratugi í skógum á Austurlandi. Leiða má líkum að frá árinu 1970 sé búið að gróðursetja til a.m.k. 10.000 hektara af skógi. Þessir ræktuðu skógar eru að vaxa um 70.000 tonn á ári. Til að setja tölur í samhengi í magni þá var landað árið 2019 tæplega 31 þúsundi tonnum af þorski í höfnum á Austurlandi.

Til að gera sér grein fyrir verðmætamyndun sem er í þessari vaxandi auðlind Austurlands þá eru til forsendur í ýmsum gögnum.

Í hverjum hektara (ha) af ræktuðum skógi á Austurlandi geta átt við eftirfarandi forsendur:
• Kolefnisbinding eru um 7,1 tonn/ha að meðaltali.
• Viðarvöxtur er a.m.k. 6,4 tonn/ha að meðaltali.
• Algengt verð á kolefnisbindingu í Evrópu eru 45 til 50 evrur tonnið.
• Við lok vaxtarlotu (tími frá gróðursetningu til lokahöggs) standa um 350 til 380 tonn nytjaviðar á hverjum hektara

Ef við notum ofangreindar forsendur og miðað er við að vaxtarlotan sé 60 ár þá er skógurinn á hverjum hektara að búa til verðmæti í kolefnisbindingu kr. 2,5 milljónir og ef við gefum okkur að nauðsynlegar grisjanir standi undir kostnaði þá stendur eftir höfuðstólinn þ.e.a.s. 380 tonn/ha með varlega áætluðu verðmæti kr. 4,2 milljónir. Miðað við gefnar forsendur þá er hver hektari af ræktuðum skógi að búa til verðmæti kr. 112.000,- á ári og það á landi sem alla jafna væri ekki verið að nýta til annarrar framleiðslu. Hægt er að leggja áherslu á að rækta þær tegundir trjáa sem vaxa tvöfalt til þrefalt meira en ofangreind meðaltöl miða við.

Mörgum finnst nóg um þessa miklu aukningu á skógrækt á svæðinu sem er sjónarmið ekki óeðlilegt þar sem flest okkar eru að upplifa breytingu á ásýnd lands. Við höfum flest alist upp við skógleysi umhverfisins en ef tölur eru skoðaðar þá eru gróðursettir skógar á Austurlandi á um 0,02% af láglendi. Samkvæmt margsamþykktum þingsályktunum á Alþingi þá skal stefna að því að rækta skóg á a.m.k. 5% láglendis.

Vonandi varpa þessar hugleiðingar ljósi á þá auðlind sem við eigum í ört vaxandi skógarauðlind. Þeir sem vilja skoða málið nánar bendi ég á grein sem ég skrifaði í tímaritið Gletting 1. tbl. 2020 um Bændaskógrækt á Austurlandi.

Skúli Björnsson skipar 5. sæti Austurlistans í kosningu til sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðar eystri, Djúpavogs, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar.

Vantar eitthvað?

8 benedikta 600x800 Það er allt í himna lagi. Það er hiti á ofnunum, ljósið logar á lampanum, matur í ísskápnum og varasjóður á bankabókinni, krakkarnir sofnaðir og ég mæti í vinnuna á morgun.

 Er  ekki lífið fullkomið ?

Eiginlega, en þó vantar eitthvað. Það er þarna en við veltum því ekki fyrir okkur í hinu daglega amstri þó það sé allt í kringum okkur og fylli í allar glufur tilverunnar.  Það gengur undir ýmsum nöfnum og birtist í öllum myndum. Það er ljósið í málverkinu, skugginn í ljósmyndinni, angurværðin í fréttastefinu, takturinn í nýasta dægurlaginu, auglýsingin í bæjarblaðinu því það vantar fleiri í kirkjukórinn.

Það er þetta sem gerir lífið að því þroskaða og eftirsóknarverða fyrirbæri sem það er. Það er… MENNINGIN.

 Bíddu, þarf eitthvað að pæla í henni, er hún ekki bara þarna og gerist að sjálfu sér?

Jú, að einhverju leyti en það þarf að leggja við hana rækt eins og blómin í stofuglugganum og kartöflurnar í garðinum. Hún þarfnast athygli okkar, næringar og ljóss. Samfélög sem hlúa að og leggja fjármagn í menningu og listir eru lífvænleg og eftirsóknarverð. Fyrirtæki sem setja fjármagn í hönnun vegnar t.d. alla jafna betur á hinum almenna markaði. Svo einfalt er það.

Austurlistinn er skipaður breiðum hópi fólks sem mun leggja sig fram við að hlúa að þessum mikilvæga og stundum óáþreifanlega þætti í nýju sveitarfélagi. Það skiptir nefnilega litlu máli hverju við áorkum í öllum stóru málunum ef hér er ekki gott að búa.

Ég kom til Seyðisfjarðar 2012 til þess að vinna eitt sumar. Hér er ég enn og það er bara ein ástæða. Það er hin ríka menning, skapandi orka og fallega samfélagið sem opnaði dyrnar og bauð okkur velkomin. Samfélag sem er stolt af gömlu húsunum, sögunni og talar fallega um bæinn sinn. Samfélag sem er orðið vant því að hingað flykkist alls kyns listafólk og hefur leyft því að lyfta samfélaginu á hærra plan. Ég treysti því að í sameinuðu sveitarfélagi getum við lagt alla flottu reynsluna saman, haldið sérstöðunni á hverjum stað um leið og við byggjum brýr  og göng okkar á milli til að tengjast.

Ef við hlúum að menningunni um leið og við byggjum upp innviðina vil ég búa hérna áfram !

Höfundur, Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, er framkvæmdastýra  og  skipar 8. sæti Austurlistans í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðar, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Framtíð fólksins sem byggði upp nútímann

4 asdis minniÍ sameiningarferli sveitarfélaganna Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Fljótsdalshéraðs og Djúpavogshrepps hefur verið lögð á hersla á að sameiningin muni bæta þjónustu og styrkja samfélagið í þessum byggðum.

Sú sveitarstjórn sem tekur til starfa í sameinuðu sveitarfélagi þann 4. október næstkomandi kemur aðeins til með að starfa í tuttugu mánuði. Það gefur augaleið að á þeim tíma þarf að leggja mikla vinnu í að samþætta starfsemi og þjónustu í sveitarfélaginu og ekki gefst færi á að veita framgöngu öllum þeim málum sem brenna á okkur.

En þrátt fyrir að starfstími fyrstu sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags verði stuttur, eða einmitt þess vegna, þurfum við að hugsa lengra fram í tímann og leggja línurnar fyrir framtíðina. Þetta tuttugu mánaða kjörtímabil verður prófsteinn á margt í sameiningu stjórnsýslunnar og formáli að næstu köflum í sögu nýs sveitarfélags. Öll viljum við að þeir kaflar verði vel skrifaðir í upphafi.

Í þessum fjórum sveitarfélögum hefur þjónustustig verið mismunandi og á það ekki síst við um það sem snýr að eftirlaunaþegum. Stærri byggðarlögin, Hérað og Seyðisfjörður hafa meira framboð af þjónustu fyrir aldraða en þau smærri þar sem lágmarksþjónusta er í boði. Meðan Fljótsdalshérað bætti þjónustu og framboð af húsnæði fyrir aldraða horfa íbúar Djúpavogshrepps upp á að neyðast til að flytja í önnur byggðarlög þegar þeir eiga orðið erfitt með að halda heimili sjálfir.

Austurlistinn leggur áherslu á að í nýju sveitarfélagi verði í boði húsnæði fyrir alla og telur að það ætti að vera skýlaus krafa í hverju samfélagi að öldruðum standi til boða hentugt húsnæði sniðið að þeirra þörfum. Í hverju byggðarlagi nýs sveitarfélags ætti því að vera boðið upp á þjónustuíbúðir til leigu eða kaups fyrir aldraða. Íbúðir sem auðvelda fólki að halda eigið heimili og í aðstæðum sem stuðla að sjálfstæði íbúanna. Í íbúðarkjörnum þar sem þjónusta á borð við heitan mat, tómstundastarf og dagdvöl er í boði og með aðstöðu fyrir þá sem vilja bjóða íbúum þjónustu, s.s. fótaaðgerðarfræðingar, hárgreiðslufólk og naglafræðinga og með aðstöðu fyrir starfsemi félaga eldri borgara.

Vilji er ekki allt sem þarf en viljinn er leið að ákvörðunum. Þegar þær hafa verið teknar er hægt að stíga það skref að finna leiðir til að koma hlutunum í framkvæmd. Ef við getum verið sammála og gert kröfur um bættar vegasamgöngur ættum við líka að geta lagst á eitt með að gera áætlanir og kröfur um að nauðungarflutningum aldraðra sé lokið. Við verðum að gera okkar besta til að bjóða þeim að „eiga áhyggjulaust ævikvöld“ á þeim stað sem rætur þeirra eru og þeir vilja búa.

Vonandi er framtíð okkar allra að verða öldruð og sú framtíð ætti að einkennast af því að við eigum kost á því að fá aðstoð sem við stýrum sjálf, fáum að ákveða við hvað aðstoðin er veitt, hvenær hún fer fram og hver veitir hana og að þetta val eigi ekki eingöngu við um fólk yngri en 67 ára.

Höfundur, Ásdís Hafrún Benediktsdóttir er varamaður í sveitarstjórn Djúpavogshrepps og skipar 4. sæti Austurlistans í komandi sveitarstjórnarkosningum sameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðar eystri, Djúpavogs, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar.

Lífsgæði og menntun – Quality of life and education

Gott 2 Kristjana 600x800samfélag grundvallast af lífsgæðum og velferð íbúanna. Hvort tveggja er mikilvæg forsenda hamingju og þroska og lykillinn að því að mannauður geti dafnað og eflst. Öflugir og skapandi leik- og grunnskólar styrkja og bæta lífskjör einstaklinga í nýju sameinuðu sveitarfélagi. Slíkt menntakerfi er meðal þess sem gerir samfélag eftirsóknarvert til búsetu.
Ábyrg og metnaðarfull menntastefna, sem unnin er í samstarfi við þá sem hlut eiga að máli leggur grunn að framsækinni menntastarfsemi fyrir börnin í sveitarfélaginu. Uppbyggilegt og metnaðarfullt starf í menntastofnunum er forsenda félagslegs réttlætis og jöfnuðar í samfélaginu. Þar eiga öll börn að geta notið sín, vaxið og dafnað. Mikilvægt er að tryggja börnum og foreldum í hinu nýja sveitarfélagi þá sérfræðiþjónustu sem nauðsynleg er. Það verður m.a. gert með endurskoðun á fyrirkomulagi þeirrar þjónustu þannig að fjármunir nýtist sem best.
Þá er einnig mikilvægt að móttaka barna af erlendum uppruna sé með þeim hætti að bæði þau og fjölskyldur þeirra aðlagist samfélaginu eins og best verður á kosið og á sem þægilegastan hátt. Það er samfélagsleg skylda okkar að reyna að mæta nýbúum með opnum örmum, skilningi og án allra fordóma burtséð frá ólíkum bakgrunni, annarri menningu og tungumálafærni. Ef þessum málum er ekki sinnt og þau ekki tekin föstum tökum strax í upphafi er alltaf hætta á félagslegri einangrun þessara hópa. Það er hagur samfélagsins að allir, bæði stórir sem smáir geti dafnað og vaxið, finni fyrir öryggi og líði vel í sínu umhverfi. Þetta verður einungis gert með markvissum aðgerðum sem þegar hefur verið lagður grunnur að.


Austurlistinn

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.