Skip to main content

Af hverju Fjarðarheiðargöng?

Hildur Þórisdóttir skrifar 21. júlí 2022 18:00

Mann setti hljóðan þegar nýlega var fjallað um kostnað við gerð Fjarðarheiðagangna í fréttatíma Stöðvar 2, þar sem Kristján Már Unnarsson, fór fyrir svo einhliða og neikvæðri umfjöllun um göngin að menn spurðu sig jafnvel hverra erinda fréttamaðurinn væri að ganga?

Hann gleymdi jú að nefna í umfjöllun sinni að stór hluti þess kostnaðar sem hin 13,3 km löngu göng munu koma til með að kosta munu skila sér tilbaka í formi skatta sem rennur tilbaka í ríkissjóð. Að göngin muni koma til með að kosta á bilinu 45-47 milljarða kr. er því afar mikil einföldun þegar upp er staðið.

Einnig var skautað fimlega framhjá því að verið er að tengja saman byggðakjarna í rúmlega 5000 manna sveitarfélagi þar sem það var beinlínis forsenda sameiningar að bætt yrði úr samgöngum milli kjarnanna í Múlaþingi svo svæðið allt geti orðið eitt atvinnu- og þjónustusvæði.

Ennfremur var ekki mikið gert úr þeirri staðreynd að hin sameiginlegi vettvangur sveitarfélaga á Austurlandi, SSA, hefur ár eftir ár ályktað að næstu jarðgöng á Austurlandi skulu vera undir Fjarðarheiði. Sveitarfélög á Austurlandi hafa komið sér saman um forgangsröðunina sem hefur verið skýr um árabil og Alþingi hefur loksins hlustað!

Það var því sérstakt að fá þessu umfjöllun fram í ljósi þess að ákvörðun hefur verið tekin eins og glöggt má sjá í samgönguáætlun Alþingis en göngin fara í útboð í haust. Ríkið hefur kostað til miklum fjármunum við rannsóknir og undirbúning sem nú er lokið en Vegagerðin kynnti þá vinnu nýverið. Hafist verður handa við gerð gangnanna seinnipart næsta árs og það er ekki ofsögum sagt að íbúar í Múlaþingi og Austurlandi öllu bíði með eftirvæntingu eftir þessari langþráðu samgöngubót.

Íbúar á Seyðisfirði búa við samgönguleysi sem hvergi þekkist á hinu byggða bóli.

Um Fjarðarheiði liggur hæsti fjallvegur á Íslandi til þéttbýlisstaðar þar sem aðeins er um eina vegtengingu að ræða. Snjóþyngslin og veðuraðstæður eru eftir því enda fullnægir vegurinn alls ekki kröfum sem gerðar er til vegar sem tengir saman nálæg byggðarlög og er auk þess tenging til Evrópu með Norrænu, sem siglir vikulega til Seyðisfjarðar allt árið um kring.

Íbúafækkun og þróun í atvinnulífi síðustu áratuga bera ófagurt vitni um það samgönguleysi sem þjakað hefur einn fallegasta bæ Austurlands. Göngin munu gjörbylta aðstæðum fyrir Seyðisfjörð sem er um margt líkur Siglufirði en þar hafði sambærileg þróun átt sér stað áður en Héðinsfjarðargöngin voru opnuð í október 2010. Síðan þeirri gangnagerð lauk hefur íbúafjöldi aftur farið upp á við og Siglufjörður orðið einn eftirsóttasti áfangastaður Norðurlands.

Í viðtali við innviðaráðherra í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2, þann 12. júlí síðastliðinn, kemur fram að tilgangurinn með jarðgöngum undir Fjarðarheiði er að gera samgöngur á Austurlandi öruggari og rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar.

Sigurður Ingi nefnir ennfremur að göngin munu hafa gríðarlega jákvæð áhrif á samfélagið á svæðinu og munu hvort tveggja styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og Austurlandi öllu.

Ekki hefur verið unnið að gangnagerð á Íslandi síðan Dýrafjarðargöngin voru opnuð í október 2020 og því löngu tímabært að hefja gangnagerð að nýju. Gjarnan hefur verið horft til vina okkar í Færeyjum í þeim efnum, sem hafa sinnt sinni byggðastefnu vel með jarðgangagerð.

Nú er lag að horfa til þeirra sem hafa farið á undan okkur Íslendingum með góðu fordæmi og gert göng sem eru mun lengri og kostnaðarsamari en Fjarðarheiðargöng. Þetta er nefnilega alveg hægt en þá þurfa menn líka að þora að hugsa stórt og landið sem eina heild sem þarf að halda í byggð. Það verður ekki gert með öðrum hætti en greiðum samgöngum sem munu alltaf koma til með að kosta en munu borga sig margfalt þegar upp er staðið.

Kristján Már veit jafnvel og við hin að byggðalög landsins eiga allt sitt undir greiðum samgöngum.

Höfundur situr í sveitarstjórn Múlaþings og stjórn SSA og Austurbrúar.

Hvar er byggðastefnan?

1 Hildur 600x800 

Hvar er byggða­stefnan?

Nýverið gaf Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, það út að fækka ætti embættum sýslumanna úr níu í eitt sem á að vera staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að breytingarnar taki gildi um áramótin 2023/2024. Þessar fréttir koma verulega á óvart því slíkar áherslur hafa ekki verið í umræðunni og hvergi má finna neitt um þessar breytingar í stjórnarsáttmála ríkissjórnarinnar.

Árið 2015 var embættum sýslumanna fækkað úr 24 í 9 ásamt því að löggæsla var að fullu aðskilin frá þeim. Þetta var gert undir þeim formerkjum að styrkja ætti embættin og þannig ættu þau betur að geta sinnt lögbundnum skyldum sínum. Eins átti breytingin að auðvelda þeim að taka að sér ný og aukin verkefni. Það reyndist öðru nær. Stjórnsýsluúttekt sem nýverið var gefin út af Ríkisendurskoðun, um samanburð á sýslumannsembættum frá 2019, sýnir fram á að ekki fylgdi nægilegt fjármagn þegar embættunum var fækkað og allar götur síðan hefur ítrekað verið bent á erfiða rekstrarstöðu embættanna án þess að á það hafi verið hlustað í ráðuneytinu.

Stefnt hefur verið að innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu hjá sýslumannsembættunum sem hefur gengið mun hægar en vonir stóðu til. Brýnt er að sú innleiðing gangi hraðar fyrir sig þar sem töluverð þjónustuskerðing hefur verið við íbúa í Múlaþingi síðustu ár vegna rekstrarvanda embættisins. Ríkið hefur engan veginn staðið við gefin fyrirheit sem hefur leitt af sér skertan opnunartíma skrifstofa, lengri afgreiðslutíma mála auk þess sem starfsfólki hefur fækkað hjá embættinu á Seyðisfirði um 18% frá sameiningu sýslumannsembættanna í byrjun árs 2015. Þó svo að ekki standi til að loka neinni af núverandi skrifstofum embættanna má segja að sporin hræði og gefi ekki tilefni til bjartsýni.

Málið er sérstaklega alvarlegt þegar hugsað er til þess að hvert einasta starf skiptir máli í byggðum úti á landi þar sem atvinnulífið er heldur einhæft. Það hefur verið tilhneiging hjá ríkinu að fækka opinberum störfum á landsbyggðinni en þenja út báknið í höfuðborginni.

Með hömlunum sem fylgdu covid lærðu fyrirtæki og stofnanir að treysta á rafrænar lausnir. Fólk vann að heiman, fjarvinnustöðvar og fjarfundabúnaður eru til um allt land og staðsetning starfsmanna skipti sífellt minna máli hjá fyrirtækjum. Með þessum breytta veruleika er kjörið tækifæri fyrir ríkið að dreifa verkefnum í meiri mæli um landið og sýna að það beri hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti.

Íbúar kalla eftir raunverulegri byggðastefnu og að hún sé ekki bara í orði. Það er ekkert til fyrirstöðu, nema hugsanlega viljinn.

Höfundur er Hildur Þórisdóttir oddviti Austurlistans og sveitarstjórnarfulltrúi í Múlaþingi.

Forvarnir í forgang - annar hluti

22 baldur 600x800Baldur Pálsson skrifar

Í fyrri grein um forvarnir var fjallað um mikilvægi á gerð hættumats almannavarna og forgangsröðun viðbragðsáætlana byggðu á hættumatinu. Hér verður farið nokkrum orðum um hvernig við getum byggt upp innra eftirlit í stofnunum sveitarfélagsins sem varða slysavarnir og eldvarnir með öruggum og skilvirkum hætti og einnig hvernig hægt er að koma upp viðbragðsteymum í hverjum byggðakjarna ef upp koma meiriháttar ógnanir og hjálp ekki líkleg til að koma utan frá.


Forvarnarfulltrúar í öllum hverfum
Í reglugerð um eldvarnir og eldvarnaeftirlit nr.723/2017 er kveðið á um innra eftirlit í fyrirtækjum og stofnunum og á því ákvæði byggir svo nefnt „Eldvarnabandalag“, sem stofnað var árið 2010 og er samstarf eftirtaldra aðila: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sjóvá almennar tryggingar hf, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM h.f., Vátryggingafélag Íslands og Vörður tryggingar hf. Eldvarnabandalagið hefur útbúið einfalt skráningarkerfi til að halda utan um eigið eldvarnaeftirlit fyrir fyrirtæki og stofnanir og Brunavarnir á Austurlandi fóru í samstarf við Eldvarnabandalagið um eins árs átaksverkefni í að koma upp eldvarnafulltrúum í öllum stofnunum á starfsvæði Brunavarna á Austurlandi en eftir að verkefninu lauk þá virtist verkefnið deyja út.

Nýtt byggt á eldra
Koma þarf upp forvarnafulltrúum í öllum byggðarlögum sem byggir á aðferðum Eldvarnabandalagsins að viðbættum almennum slysavörnum en með því kemur fram tölfræði sem hægt er að rýna til gagns og nýta til betri árangurs auk þess sem verkefnið mun stórlétta á eldvarnaeftirliti slökkviliðsins.

Skýrar boðleiðir
Ef forvarnafulltrúi hefur við mánaðarlegt eftirlit séð bilun til dæmis í eldvarnabúnaði þá skráir hann það og um leið hvenær áætlað er að úrbótum ljúki. Ef úrbótum er ekki sinnt þá sendir forvarnafulltrúinn erindið til eldvarnaeftirlits slökkviliðsins en þar eru fyrir hendi þau úrræði sem duga til að úrbótum sé sinnt en best er að umsjónarfulltrúi fasteigna lagfæri strax þegar um lífsbjargandi búnað er að tefla. Klárt þarf að vera hvert úrbótum um slysavarnir verður vísað og hvernig þeim verður forgangsraðað.

Vel að merkja
Samræma þarf merkingar gatna og húsa í öllu sveitarfélaginu svo viðbragðsaðilar komist án vandræða að öllum skráðum íbúðum í sveitarfélaginu og þarf ekki að fjölyrða frekar um nauðsyn þess.

Vel skipulagðir viðbragðshópar í öllum byggðakjörnum
Á Seyðisfirði hefur verið vinna í gangi við að móta viðbragðshóp sem bregst við ef vá ber að höndum og þar er mikilvægt að koma því skipulagi á í öllum byggðakjörnum. Hlutverk heimastjórna í sveitarfélaginu þarf að taka mið af þessum hugmyndum og vera leiðandi í umsjón og eftirfylgni þeirra.

Höfundur er fyrrverandi slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Austurlands og skipar 22. sæti Austurlistans. 

 

Nýsköpun á Austurlandi

1 Hildur 600x800Nýverið las ég pistil eftir unga austfirska konu sem dró saman um það bil allt það sem ég hef verið að hugsa um síðustu 6 ár síðan ég hóf fyrst afskipti af sveitarstjórnarmálum.

Við búum í heimi þar sem hröð þróun á sviði tækni og þekkingar hefur átt sér stað. Menntastig er sífellt að hækka á vinnumarkaði og kröfurnar um sérhæfð og áhugaverð störf í takt við það. Ungt fólk getur valið sér búsetu nánast hvar sem er því nú er allur heimurinn undir.

Ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar tilkynnti í byrjun árs að Nýsköpunarmiðstöð Íslands yrði lögð niður um næstu áramót. Enn hefur ekki verið tilkynnt um hvað á að taka við af Nýsköpunarmiðstöð þar sem starfa um 80 manns og flestir á höfuðborgarsvæðinu. Sú stofnun er gott dæmi um hversu mjög hefur hallað á landsbyggðina þar sem er hvað mesta þörfin fyrir stuðning og þekkingu á sviði nýsköpunar og fyrirtækjareksturs. Afraksturinn höfum við meðal annars séð í hlutfalli styrkja sem fara til landsbyggðarinnar.

Á Austurlandi hefur starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar eingöngu verið í mýflugumynd sem vekur undrun þegar rýnt er í fjölbreytileika atvinnuvega hér, tekjuþróun, launamun kynjanna og íbúaþróun sem hefur ekki verið með þeim hætti sem við hefðum óskað og væri æskilegt.

„Í nýju sveitarfélagi verðum við að vera framsýn þegar kemur að nýsköpun og stuðningi við frumkvöðla.”

Við getum gert svo miklu betur á svo mörgum sviðum ef við bara þorum því. Þorum að vera framsækin og hugmyndarík. Þorum að krefja ríkisvaldið um sterkari innviði sem hafa visnað undanfarna áratugi og afhjúpaðist eftirminnilega í óveðri í lok árs 2019. Það er ekki nægilega mikið talað um hversu lítið er eftir af landsbyggðinni í landi þar sem eina byggðastefnan virðist vera “höfuðborgarstefna”. Í Reykjavík hafa verið byggðir upp sterkir innviðir og kröftug fyrirtæki en eftir stendur búseta um það bil 16% landsmanna á landsbyggðinni og innviðir sem eru á köflum óboðlegir.

Nú reynir á ríkisvaldið að sýna vilja í verki og koma á starfsemi nýsköpunar og atvinnumála í samvinnu við sameinað sveitarfélag því fjölbreytt atvinnulíf er undirstaða samfélaga þar sem þykir eftirsóknarvert að búa.

Ungt fjölskyldufólk horfir á vænlega búsetukosti út frá gæðum skólanna, húsnæðismálum, atvinnutækifærum, samgöngum, heilbrigðisþjónustu, menningu og félagslífi.

„Tækifærin til að sækja fram eru ótalmörg og við ætlum að gera sameinað sveitarfélag að framúrskarandi búsetukosti.“

Við erum bjartsýn á tækifærin sem blasa við og munum ótrauð sækja fram en gerum jafnframt kröfu á ríkisvaldið að koma með okkur í þá vegferð!

Því við græðum öll á sterkri höfuðborg og öflugri landsbyggð.

Höfundur, Hildur Þórisdóttir, er forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði og skipar 1. sæti Austurlistans í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðar, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Skógarauðlind Austurlands

5 skuli 600x800Um það bil 40 ár eru nú frá því að lögð voru fyrstu drög að sérstöku skógræktarátaki á Fljótsdalshéraði fyrir atbeina ríkisins og með þátttöku bænda og annarra landeiganda. Verkefnið fékk nafnið Héraðsskógar. Áður hafði verið stofnað til nytjaskógaverkefnis á Upphéraði sem nefndist Fljótsdalsáætlun og hófst með gróðurssetningu árið 1970. Þá eru á svæðinu þjóðskógar og fjöldi skógarteiga skógræktarfélaga ásamt náttúrulegum birkiskógum sem finna má víða um landshlutann.

Margir gera sér ekki grein fyrir hve mikil auðlind er verða til næstu áratugi í skógum á Austurlandi. Leiða má líkum að frá árinu 1970 sé búið að gróðursetja til a.m.k. 10.000 hektara af skógi. Þessir ræktuðu skógar eru að vaxa um 70.000 tonn á ári. Til að setja tölur í samhengi í magni þá var landað árið 2019 tæplega 31 þúsundi tonnum af þorski í höfnum á Austurlandi.

Til að gera sér grein fyrir verðmætamyndun sem er í þessari vaxandi auðlind Austurlands þá eru til forsendur í ýmsum gögnum.

Í hverjum hektara (ha) af ræktuðum skógi á Austurlandi geta átt við eftirfarandi forsendur:
• Kolefnisbinding eru um 7,1 tonn/ha að meðaltali.
• Viðarvöxtur er a.m.k. 6,4 tonn/ha að meðaltali.
• Algengt verð á kolefnisbindingu í Evrópu eru 45 til 50 evrur tonnið.
• Við lok vaxtarlotu (tími frá gróðursetningu til lokahöggs) standa um 350 til 380 tonn nytjaviðar á hverjum hektara

Ef við notum ofangreindar forsendur og miðað er við að vaxtarlotan sé 60 ár þá er skógurinn á hverjum hektara að búa til verðmæti í kolefnisbindingu kr. 2,5 milljónir og ef við gefum okkur að nauðsynlegar grisjanir standi undir kostnaði þá stendur eftir höfuðstólinn þ.e.a.s. 380 tonn/ha með varlega áætluðu verðmæti kr. 4,2 milljónir. Miðað við gefnar forsendur þá er hver hektari af ræktuðum skógi að búa til verðmæti kr. 112.000,- á ári og það á landi sem alla jafna væri ekki verið að nýta til annarrar framleiðslu. Hægt er að leggja áherslu á að rækta þær tegundir trjáa sem vaxa tvöfalt til þrefalt meira en ofangreind meðaltöl miða við.

Mörgum finnst nóg um þessa miklu aukningu á skógrækt á svæðinu sem er sjónarmið ekki óeðlilegt þar sem flest okkar eru að upplifa breytingu á ásýnd lands. Við höfum flest alist upp við skógleysi umhverfisins en ef tölur eru skoðaðar þá eru gróðursettir skógar á Austurlandi á um 0,02% af láglendi. Samkvæmt margsamþykktum þingsályktunum á Alþingi þá skal stefna að því að rækta skóg á a.m.k. 5% láglendis.

Vonandi varpa þessar hugleiðingar ljósi á þá auðlind sem við eigum í ört vaxandi skógarauðlind. Þeir sem vilja skoða málið nánar bendi ég á grein sem ég skrifaði í tímaritið Gletting 1. tbl. 2020 um Bændaskógrækt á Austurlandi.

Skúli Björnsson skipar 5. sæti Austurlistans í kosningu til sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðar eystri, Djúpavogs, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar.

Vantar eitthvað?

8 benedikta 600x800 Það er allt í himna lagi. Það er hiti á ofnunum, ljósið logar á lampanum, matur í ísskápnum og varasjóður á bankabókinni, krakkarnir sofnaðir og ég mæti í vinnuna á morgun.

 Er  ekki lífið fullkomið ?

Eiginlega, en þó vantar eitthvað. Það er þarna en við veltum því ekki fyrir okkur í hinu daglega amstri þó það sé allt í kringum okkur og fylli í allar glufur tilverunnar.  Það gengur undir ýmsum nöfnum og birtist í öllum myndum. Það er ljósið í málverkinu, skugginn í ljósmyndinni, angurværðin í fréttastefinu, takturinn í nýasta dægurlaginu, auglýsingin í bæjarblaðinu því það vantar fleiri í kirkjukórinn.

Það er þetta sem gerir lífið að því þroskaða og eftirsóknarverða fyrirbæri sem það er. Það er… MENNINGIN.

 Bíddu, þarf eitthvað að pæla í henni, er hún ekki bara þarna og gerist að sjálfu sér?

Jú, að einhverju leyti en það þarf að leggja við hana rækt eins og blómin í stofuglugganum og kartöflurnar í garðinum. Hún þarfnast athygli okkar, næringar og ljóss. Samfélög sem hlúa að og leggja fjármagn í menningu og listir eru lífvænleg og eftirsóknarverð. Fyrirtæki sem setja fjármagn í hönnun vegnar t.d. alla jafna betur á hinum almenna markaði. Svo einfalt er það.

Austurlistinn er skipaður breiðum hópi fólks sem mun leggja sig fram við að hlúa að þessum mikilvæga og stundum óáþreifanlega þætti í nýju sveitarfélagi. Það skiptir nefnilega litlu máli hverju við áorkum í öllum stóru málunum ef hér er ekki gott að búa.

Ég kom til Seyðisfjarðar 2012 til þess að vinna eitt sumar. Hér er ég enn og það er bara ein ástæða. Það er hin ríka menning, skapandi orka og fallega samfélagið sem opnaði dyrnar og bauð okkur velkomin. Samfélag sem er stolt af gömlu húsunum, sögunni og talar fallega um bæinn sinn. Samfélag sem er orðið vant því að hingað flykkist alls kyns listafólk og hefur leyft því að lyfta samfélaginu á hærra plan. Ég treysti því að í sameinuðu sveitarfélagi getum við lagt alla flottu reynsluna saman, haldið sérstöðunni á hverjum stað um leið og við byggjum brýr  og göng okkar á milli til að tengjast.

Ef við hlúum að menningunni um leið og við byggjum upp innviðina vil ég búa hérna áfram !

Höfundur, Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, er framkvæmdastýra  og  skipar 8. sæti Austurlistans í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðar, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.