Lífsgæði og menntun – Quality of life and education
Gott samfélag grundvallast af lífsgæðum og velferð íbúanna. Hvort tveggja er mikilvæg forsenda hamingju og þroska og lykillinn að því að mannauður geti dafnað og eflst. Öflugir og skapandi leik- og grunnskólar styrkja og bæta lífskjör einstaklinga í nýju sameinuðu sveitarfélagi. Slíkt menntakerfi er meðal þess sem gerir samfélag eftirsóknarvert til búsetu.
Ábyrg og metnaðarfull menntastefna, sem unnin er í samstarfi við þá sem hlut eiga að máli leggur grunn að framsækinni menntastarfsemi fyrir börnin í sveitarfélaginu. Uppbyggilegt og metnaðarfullt starf í menntastofnunum er forsenda félagslegs réttlætis og jöfnuðar í samfélaginu. Þar eiga öll börn að geta notið sín, vaxið og dafnað. Mikilvægt er að tryggja börnum og foreldum í hinu nýja sveitarfélagi þá sérfræðiþjónustu sem nauðsynleg er. Það verður m.a. gert með endurskoðun á fyrirkomulagi þeirrar þjónustu þannig að fjármunir nýtist sem best.
Þá er einnig mikilvægt að móttaka barna af erlendum uppruna sé með þeim hætti að bæði þau og fjölskyldur þeirra aðlagist samfélaginu eins og best verður á kosið og á sem þægilegastan hátt. Það er samfélagsleg skylda okkar að reyna að mæta nýbúum með opnum örmum, skilningi og án allra fordóma burtséð frá ólíkum bakgrunni, annarri menningu og tungumálafærni. Ef þessum málum er ekki sinnt og þau ekki tekin föstum tökum strax í upphafi er alltaf hætta á félagslegri einangrun þessara hópa. Það er hagur samfélagsins að allir, bæði stórir sem smáir geti dafnað og vaxið, finni fyrir öryggi og líði vel í sínu umhverfi. Þetta verður einungis gert með markvissum aðgerðum sem þegar hefur verið lagður grunnur að.