Benedikta Guðrún Svavarsdóttir

Málefni sem mér eru hugleikin:

  • Til þess að samfélagið dafni og vaxi þurfa innviðirnir að vera í lagi. 
  • Samgöngur bæði innan fjórðungs, innanlands og við önnur lönd. 
  • Tryggar vetrarsamgöngur í landshlutanum öllum. Að flug til og frá höfuðborginni verði niðurgreitt fyrir alla landsmenn.
  • Að komið verði á beinu flugi frá Egilstaðaflugvelli til áfangastaða í Evrópu. 
  • Hugað verði að fleiri föstum ferjutengingum við Seyðisfjarðarhöfn.
  • Menntunin: Sérhæfðum menntunarmöguleikum á háskólastigi verði komið á. 
  • Skólar framtíðarinnar eru ekki endilega eins og skólarnir sem við þekkjum í dag
  • Heilbrigðið: Lýðheilsa verði stórlega efld og læknisþjónusta við íbúa tryggð.
  • Menningin er hjartsláttur samfélagsins og ber að hlúa að og efla hvar sem kostur er.
  • Framtíðin: Við vitum það eitt að framtíðin er óráðin gáta. Því þurfum við á öllum sviðum mannlífsins að vera opin fyrir nýjum lausnum og möguleikum.
8. sæti

Menntun

Hjúkrunarfræðingur

Fjölskylda

Ég bý með Ingarafni Steinarssyni myndlistarmanni í Bárunni á Seyðisfirði og við eigum tvo unga drengi.

Starfsferill

Ég er yngsta barnið í fjölskyldu þar sem vinnusiðgæði var í hávegum haft. Það var því eins gott að standa sig þegar ég, smástelpan, tók að mér það hlutverk að bera út Moggann í stóru blokkirnar í Breiðholtinu. Þetta var bara byrjunin á litríkum starfsferli og flakki um veröldina. 
Draumur minn var að hjálpa til í þriðja heiminum og flutti ég því eftir stúdentspróf til Akureyrar þar sem ég lauk prófi í hjúkrunarfræði árið 2008. Þaðan lá leiðin beint til Malaví sem varð mér dýrmæt reynsla þar sem námið og gamli knattspyrnuferillinn kom að góðum notum.
Þegar heim kom þyrsti mig í íslensk öræfi. Ég eyddi nokkrum sumrum á fjöllum við skálavörslu og móttöku ferðamanna en dvaldi á veturna í Suður-Ameríku og síðar á Indlandi þar sem ég starfaði við munaðarleysingjaheimili vetrarlangt. 
Þar hitti ég Seyðfirðinginn Þóru Guðmundsdóttur og réð mig í vinnu við gistiheimilið hennar á Seyðisfirði sumarið 2011. Árið eftir tók ég svo við rekstrinum og hef séð um hann síðan. Þetta hafa verið einkar áhugaverðir tímar, mikill vöxtur í ferðaþjónustu og örar breytingar í starfsumhverfi s.s. í bókunarkerfum og markaðssetningu á samfélagsmiðlum. Samhliða rekstrinum hef ég unnið að uppbyggingu og endurnýjun á húsakosti, bæði hostelsins og eigin heimilis, en ég og fjölskylda mín búum í gömlu sjóhúsi sem hefur verið endurnýjað frá grunni.
Ég hef kunnað afar vel við mig á Seyðisfirði og verið virk í samfélaginu, sit í bæjarstjórn og tek þátt í nefndastörfum. Einnig er ég í stjórn Lungaskólans.

Áhugamál

Lífið sjálft, góðir vinir, góður matur og góðar stundir með drengjunum mínum.
Austurland er fullt af náttúruvænum fjölskyldugæðum, mest finnst mér gaman að drífa allt liðið með mér í sund og baðferðir. 


Austurlistinn

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.