Forvarnir í forgang - annar hluti

22 baldur 600x800Baldur Pálsson skrifar

Í fyrri grein um forvarnir var fjallað um mikilvægi á gerð hættumats almannavarna og forgangsröðun viðbragðsáætlana byggðu á hættumatinu. Hér verður farið nokkrum orðum um hvernig við getum byggt upp innra eftirlit í stofnunum sveitarfélagsins sem varða slysavarnir og eldvarnir með öruggum og skilvirkum hætti og einnig hvernig hægt er að koma upp viðbragðsteymum í hverjum byggðakjarna ef upp koma meiriháttar ógnanir og hjálp ekki líkleg til að koma utan frá.


Forvarnarfulltrúar í öllum hverfum
Í reglugerð um eldvarnir og eldvarnaeftirlit nr.723/2017 er kveðið á um innra eftirlit í fyrirtækjum og stofnunum og á því ákvæði byggir svo nefnt „Eldvarnabandalag“, sem stofnað var árið 2010 og er samstarf eftirtaldra aðila: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sjóvá almennar tryggingar hf, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM h.f., Vátryggingafélag Íslands og Vörður tryggingar hf. Eldvarnabandalagið hefur útbúið einfalt skráningarkerfi til að halda utan um eigið eldvarnaeftirlit fyrir fyrirtæki og stofnanir og Brunavarnir á Austurlandi fóru í samstarf við Eldvarnabandalagið um eins árs átaksverkefni í að koma upp eldvarnafulltrúum í öllum stofnunum á starfsvæði Brunavarna á Austurlandi en eftir að verkefninu lauk þá virtist verkefnið deyja út.

Nýtt byggt á eldra
Koma þarf upp forvarnafulltrúum í öllum byggðarlögum sem byggir á aðferðum Eldvarnabandalagsins að viðbættum almennum slysavörnum en með því kemur fram tölfræði sem hægt er að rýna til gagns og nýta til betri árangurs auk þess sem verkefnið mun stórlétta á eldvarnaeftirliti slökkviliðsins.

Skýrar boðleiðir
Ef forvarnafulltrúi hefur við mánaðarlegt eftirlit séð bilun til dæmis í eldvarnabúnaði þá skráir hann það og um leið hvenær áætlað er að úrbótum ljúki. Ef úrbótum er ekki sinnt þá sendir forvarnafulltrúinn erindið til eldvarnaeftirlits slökkviliðsins en þar eru fyrir hendi þau úrræði sem duga til að úrbótum sé sinnt en best er að umsjónarfulltrúi fasteigna lagfæri strax þegar um lífsbjargandi búnað er að tefla. Klárt þarf að vera hvert úrbótum um slysavarnir verður vísað og hvernig þeim verður forgangsraðað.

Vel að merkja
Samræma þarf merkingar gatna og húsa í öllu sveitarfélaginu svo viðbragðsaðilar komist án vandræða að öllum skráðum íbúðum í sveitarfélaginu og þarf ekki að fjölyrða frekar um nauðsyn þess.

Vel skipulagðir viðbragðshópar í öllum byggðakjörnum
Á Seyðisfirði hefur verið vinna í gangi við að móta viðbragðshóp sem bregst við ef vá ber að höndum og þar er mikilvægt að koma því skipulagi á í öllum byggðakjörnum. Hlutverk heimastjórna í sveitarfélaginu þarf að taka mið af þessum hugmyndum og vera leiðandi í umsjón og eftirfylgni þeirra.

Höfundur er fyrrverandi slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Austurlands og skipar 22. sæti Austurlistans. 

 


Austurlistinn

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.