Stefnuskrá

 • Velferðar- og fjölskylduráð

  Fræðslumál – velferð íbúa – íþróttir og tómstundir – mannréttindi - menning

  Fræðslu- og menntamál

  Austurlistinn veit að gott skólastarf er undirstaða og fjöregg allra samfélaga í sveitarfélaginu. Börn eiga að fá menntun, aðbúnað og þjónustu við hæfi hvers og eins innan leik- og grunnskóla, í öllum byggðakjörnum sveitarfélagsins.
  Nám á háskólastigi á Austurlandi er mikilvægt byggðamál. Því viljum við efla háskólamenntun í Múlaþingi í samstarfi við UHI. Slíkt samstarf er stór áfangi í að auka lífsgæði og efla mannauð á Austurlandi.
  Nauðsynlegt er að auka vægi iðn- og tæknigreina í öllu skólastarfi og stuðla að því að rannsóknir og nýsköpun eflist á öllu Austurlandi. Tryggja þarf áfram gott framboð á endurmenntun og fjarnámi og hafa góða námsaðstöðu í öllum byggðakjörnum.

  Við viljum að í Múlaþingi verði:

  • Starfsumhverfi í takt við þarfir starfsfólks og nemenda skólanna og lögð áhersla á að hækka hlutfall menntaðs starfsfólks í leik- og grunnskólum.
  • Aukin áhersla á fjölbreyttan mannauð á leik- og grunnskólastigi svo sem þroskaþjálfa, talmeinafræðinga, iðjuþjálfa og sálfræðinga.
  • Samfella í þjónustu við nemendur milli skólastiga og hægt sé að miðla sérþekkingu starfsmanna milli skóla.
  • Styðja við áframhaldandi þróun og vöxt Lunga skólans og Hallormsstaðaskóla.
  • Kennsla efld fyrir börn sem hafa ekki íslensku að móðurmáli ásamt því að styðja við samstarf milli skóla til að styrkja slíka kennslu.
  • Gott aðgengi barna að hljóð- og lesefni á sínu móðurmáli í bókasöfnum sveitarfélagsins.
  • Skólasamfélagið með aðgerðaáætlun fyrir nemendur og foreldra af erlendum uppruna.
  • Starfsemi tónlistarskóla styrkt og horft til samstarfs milli skólanna til að styrkja faglegt starf.

  Velferð


  Grunnheilbrigðisþjónusta í öllum samfélögum sveitarfélagsins er nauðsynleg. Tryggja þarf að heilbrigðisþjónusta sé í samræmi við þarfir íbúa og gesta í öllu sveitarfélaginu. Félagsþjónustu sveitarfélagsins þarf að sníða að þörfum íbúa í hverju samfélagi fyrir sig og tryggja þar viðeigandi mannauð og þjónustustig. Hugað verði sérstaklega að þjónustu við aldraða íbúa og gerð úttekt á þjónustu- og húsnæðisþörf þeirra.

  Við viljum að í Múlaþingi verði:

  • Fjölbreytt búsetuúrræði, þar með talið félagslegt húsnæði í öllum byggðarkjörnum sveitarfélagsins.
  • Öldruðum íbúum sveitarfélagsins gert kleift að fá alla þá þjónustu sem þeir eiga rétt á, þar með talið viðeigandi lausnir í búsetumálum.
  • Gerð áætlun um byggingu þjónustuíbúða fyrir aldraða og tryggð verði dagdvöl aldraðra í öllum kjörnum.
  • Innleidd markmið Barnvænna sveitarfélaga sem snúa að því virða og uppfylla réttindi barna samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

  Íþróttir, æskulýðs- og tómstundastarf


  Íþróttir, tómstundir og félagsstarf eru stór þáttur í lífsgæðum fólks. Í félagasamtökum og sveitarfélagsins er víða unnið frábært starf sem þarf að styðja og efla. Við viljum að Múlaþing verði heilsueflandi samfélag og unnin verði lýðheilsuáætlun.


  Við viljum að í Múlaþingi verði:

  • Fleiri iðkendur á öllum aldri í íþrótta- og tómstundastarfi.
  • Kynjajafnréttis gætt í öllu íþrótta- og tómstundastarfi.
  • Öllum börnum tryggður aðgangur að íþrótta- og tómstundastarfi án tillits til efnahags og búsetu.
  • Stutt við sameiginlegt íþróttastarf innan sveitarfélagsins meðal annars með frístunda- og ferðastyrk.
  • Boðið upp á skipulagðar samgöngur í íþróttir og tómstundir í góðu samstarfi við framkvæmdaaðila.
  • Unnin forvarnaráætlun.
  • Unnið eftir samþykktri áætlun varðandi uppbyggingu og endurnýjun íþróttamannvirkja.
  • Áfram stutt við starfsemi á skíðasvæðinu í Stafdal og uppbyggingu þar.

  Mannréttindi og samfélag

  Austurlistinn leggur áherslu á að jafnrétti og önnur mannréttindi séu virt. Mikilvægt er að gerð verði móttökuáætlun fyrir nýja erlenda íbúa og flóttamenn. Brýnt er að nýjum íbúum verði gert kleift að aðlagast samfélaginu. Það er forgangsverkefni Austurlistans að skapa skilyrði til að fjölskyldur og einstaklingar sjái sér hag í því að setjast að í Múlaþingi. Við viljum fjölga íbúum og hlúa vel að barnafjölskyldum.


  Við viljum að í Múlaþingi verði:

  • Bætt aðgengi fyrir fatlaða í sveitarfélaginu en aðgengismál eru víða í ólestri.
  • Mannúðarstarfi lagt lið með móttöku flóttafólks og vandað verði til verka við undirbúning komu þeirra..
  • Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna fylgt og sett fram aðgerðaáætlun hvernig það megi verða.
 • Byggðaráð

  Atvinnumál – Fjármál – Stjórnsýsla – Byggðamál – Markaðs- og kynningarmál – Menning - Heimastjórnir

  Atvinnumál

  Austurlistinn lítur á það sem höfuðverkefni í Múlaþingi að styrkja enn frekar búsetuskilyrði í öllum byggðum sveitarfélagsins með vandaðri þjónustu og uppbyggingu innviða til sjávar og sveita. Við eigum fjölbreytt samfélög sem eru góður búsetukostur fyrir einstaklinga og fjölskyldur á öllum aldri. Við viljum að sérstaða hvers kjarna fái notið sín. Fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf er undirstaða allra samfélaga. Austurlistinn vill að sveitarfélagið styðji við atvinnuuppbyggingu sem skilar tekjum í framtíðinni, dragi að ný og fjölbreytt störf í starfandi fyrirtækjum eða nýjum sprotafyrirtækjum.
  Í sveitarfélaginu eru víða kjöraðstæður til matvælaframleiðslu og Austurlistinn vill að sjálfbær matvælaframleiðsla með gæða afurðum verði áfram undirstaða búsetu til sjávar og sveita. Þá er mikilvægt að fullvinnsla matvæla verði í auknum mæli í sveitarfélaginu.


  Við viljum að í Múlaþingi verði:

  • Mótuð atvinnustefna fyrir sveitarfélagið.
  • Unnið að því að tryggja að í öllum samfélögum sveitarfélagsins verði blómlegt atvinnulíf og byggð til framtíðar í sátt og samvinnu við íbúa.
  • Staðinn vörður um opinber störf í sveitarfélaginu og leitað leiða með stjórnvöldum til að fjölga þeim í samræmi við stefnu stjórnvalda um störf án staðsetningar.
  • Lögð áhersla á frekari matvælaframleiðslu og nýsköpun til sveita.
  • Hafist handa við fyrirhugaða uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli sem varaflugvallar, framtíðarskipulag, uppbyggingu og markaðssetningu á flugvallarsvæðinu.
  • Barist verði fyrir hagsmunum sjávarbyggða sveitarfélagins varðandi hlutdeild í byggðakvóta og frekari eflingu strandveiða ásamt því að tryggð verði áframhaldandi línuívilnun.
  • Aðstaða til nýsköpunar, rannsókna og frumkvöðlastarfs og fyrir störf án staðsetningar.


  Fjármál

  Öguð fjármálastjórn er forsenda þess að Múlaþing geti blómstrað til framtíðar. Með upplýsingagjöf og opnu ferli gefst íbúum færi á að veita aðhald og vera meðvitaðir um rekstur og stöðu sveitarfélagsins hverju sinni. Gæta þarf aðhalds og mikilvægt er að hafa góða yfirsýn í rekstri sveitarfélagsins.


  Við viljum að í Múlaþingi verði:

  • Bókhald sveitarfélagsins opnað og gert aðgengilegt íbúum.
  • Að sveitarfélagið fái sanngjarna hlutdeild af tekjum sem verða til í sveitarfélaginu s.s. í ferðaþjónustu, fiskeldi og orkumannvirkjum.
  • Að unnið sé eftir áætlunum í öllum stærri verkefnum svo ekki sé farið langt út fyrir kostnaðarviðmið hvers verkefnis.
  • Útboð byggingaframkvæmda metið með hliðsjón af byggingar- og rekstrarkostnaði á líftíma bygginganna.

  Stjórnsýsla

  Stjórnsýslu er ætlað að þjónusta íbúa sveitarfélagsins og mikilvægt að þjónustan sé fagleg, góð og skilvirk. Mikilvægt er að gæta jafnræðis og tryggja að raddir minni byggðarkjarna og dreifbýlis heyrist.
  Stjórnsýsla Múlaþings þarf að vera öflug, einföld og skilvirk og ákvarðanir skýrar og vel rökstuddar. Verkefni sveitarstjórnar er að marka skýra stefnu í upphafi og horfa til framtíðar. Sterkar heimastjórnir tryggja góða nærþjónustu. Austurlistinn vill að heimastjórnir fái vel skilgreint hlutverk, vald til að taka ákvarðanir í nærumhverfinu og fjármagn til að vinna verkefni í sínu byggðarlagi.


  Við viljum að í Múlaþingi verði:

  • Fyrirfram tilgreint fjármagn í hverfispottum í umsjón heimastjórna þar sem íbúar eiga aðkomu að forgangsröðun verkefna hjá sveitarfélaginu.
  • Að stjórnsýsla Múlaþings sé gagnsæ og tæknivædd með rafrænni stjórnsýslu.
  • Samráð milli heimastjórna með sameiginlegum fundum tvisvar til fjórum sinnum á hverju kjörtímabili til að miðla á milli upplýsingum, þekkingu og reynslu.

  Byggðamál


  Mikilvægt er að efla innviði og stunda öflugt kynningar- og markaðsstarf þar sem lífsgæði í byggðakjörnum Múlaþings eru kynnt landsmönnum. Auka þarf framboð húsnæðis svo unnt sé að fjölga íbúum í öllum byggðakjörnum.


  Við viljum að í Múlaþingi verði:

  • Skýr byggðastefna þar sem lögð er sérstök áhersla á málefni dreifbýlis og jaðarsvæða.
  • Greiðar samgöngur milli byggðakjarna allt árið um kring svo Múlaþing geti orðið eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Mikilvægt er að engar tafir verði á áætluðum samgöngubótum með göngum undir Fjarðarheiði og heilsársveg um Öxi.
  • Lokið við hættumat vegna náttúruhamfara og mögulegra afleiðinga þeirra í sveitarfélaginu.
  • Almannavarnir efldar svo þær hafi burði til að sinna sviðsmyndagerð, áhættumati og áætlanagerð samhliða því að þróa og bæta kerfi viðbragðsaðila.
  • Unnin markaðsáætlun þar sem Múlaþing er markaðssett sem fjölskylduvænt og gott samfélag til búsetu.
  • Unnin markaðsáætlun fyrir hafnir sveitarfélagsins.

  Menning

  Blómlegt menningarlíf endurspeglar samfélagið og veitir íbúum og gestum þess lífsfyllingu. Það þarf að hlúa vel að þeim samfélagslegu verðmætum sem í menningunni felast. Menningarmál eru atvinnumál ogvið viljum fara í vinnu með stjórnvöldum að finna leiðir til þess að tryggja rekstur mikilvægra menningarstofnana og listahátíða á svæðinu

  Við viljum að í Múlaþingi verði:

  • Stutt við fjölbreytt lista- og menningarstarf fyrir alla aldurshópa.
  • Leitað leiða til að halda úti skapandi menningarstörfum.
  • Unnin vönduð menningarstefna.
  • Stefnt að því að viðeigandi húsnæði fyrir sviðslistir og aðra listastarfsemi sé til staðar sem víðast.
  • Tryggður til framtíðar rekstur menningarmiðstöðva og menningarhúsa.
  • Stutt við málefni safna, varðveislu sagnaarfs og annars menningarstarfs.
  • Stefnt að því að koma upp ásættanlegu geymsluhúsnæði fyrir safnamuni á Austurlandi
 • Umhverfis- og framkvæmdaráð

  Eigna- skipulags- og umhverfishluti Umhverfisstefna – sjálfbært sveitarfélag - skipulagsmál - samgöngur - veitur þjónustumiðstöðvar - eignasjóður - rekstur, viðhald og nýframkvæmdir - hafnir og rekstur

  Umhverfismál
  Austurlistinn vill að Múlaþing verði í fararbroddi í umhverfismálum. Í áætlanagerð og aðgerðum verði stuðst við Sóknaráætlun Austurlands og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. 

  Við viljum að í Múlaþingi verði: 

  • Lögð áhersla á snyrtilega og fagra ásýnd allra byggðakjarna
  • Kolefnisjöfnun efld með aukinni nýskógræktog markvissri nýtingu skóga.
  • Hvatt til verkefna á sviði umhverfisvænna orkugjafa, fjölgun hleðslustöðva1 og eflingu vistvæns landbúnaðar.
  • Lögð áhersla á vægi umhverfisáhrifa mannvirkja og framkvæmda tengdum orkuframleiðslu við gerð nýs aðalskipulags.
  • Tryggt að umhverfisáhrif af völdum starfsemi í sveitarfélaginu verði vöktuð og unnið að úrbótum þar sem þörf er á.
  • Lögð áhersla á að sorphirða í sveitarfélaginu verði til fyrirmyndar á sviði flokkunar, endurvinnslu og jarðgerðar.
  • Lögð áhersla á endurheimt fyrri náttúrugæða svo sem votlendis, náttmyrkurs og birkiskóga.

  Skipulagsmál

  Með nýju aðalskipulagi Múlaþings vill Austurlistinn að mynduð sé skýr stefna um náttúruvernd og landnotkun í samráði við landeigendur og íbúa sveitarfélagsins. Austurlistinn vill leggja áherslu á öryggis- og almannavarnamál í sveitarfélaginu.

  Við viljum að í Múlaþingi verði:

  • Hafin vinna við nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið allt.
  • Unnið alhliða hættumat í öllu sveitarfélaginu og áætlanir út frá því.
  • Unnið áfram að vörnum við skriðuföllum á Seyðisfirði.
  • Gert ráð fyrir skynsamlegri landnýtingu, góðum almenningssamgöngum, hjóla- og göngustígum.
  •  Afgreiðsla í skipulags- og byggingarmálum gegnsæ og fljótvirk og upplýsingagjöf efld.
  • Greind þau svæði sem henta til vindorkunýtingar og tekið tillit til umhverfis-, samfélags og efnahagslegra þátta.
  • Skipulagsvald yfir hafsvæðum innan fjarða á hendi sveitarfélagsins.

  Samgöngur
  Greiðar samgöngur í lofti, láði og legi eru lífæð íbúa og atvinnulífs. Tenging allra byggðakjarna við flug og sjúkrahús þegar hættu ber að höndum varðar líf og heilsu fólks. Fjarðarheiðargöng, heilsársvegur um Öxi og endurbætur á Borgarfjarðarvegi eru forsendur jákvæðrar þróunar í öllum byggðakjörnum. Mikilvægt er að vinna ötullega með yfirvöldum og stofnunum að því að efla samgöngur innan Austurlands alls.

  Við viljum að í Múlaþingi verði:

  • Haldið áfram öflugri starfsemi hafna, uppbyggingu þeirra og markaðssetningu. Jafnframt verði unnið að orkuskiptum í höfnum sveitarfélagsins.
  • Unnið að því að styrkja Egilstaðaflugvöll fyrir millilanda- og fraktflug. Lengja þarf flugbraut og stækka flughlöð.
  • Lögð áhersla á að stjórnvöld komi á jöfnun eldsneytiskostnaðar milli flugvalla.
  • Boðið upp á viðráðanlegt verð á flugþjónustu.
  • Farsíma- og tetrasamband tryggt svo það þjóni öryggis- og samskiptahlutverki sínu í öllu sveitarfélaginu.
  • Öllum íbúum sveitarfélagsins tryggt aðgengi að ljósleiðara og 3ja fasa rafmagni.
  • Unnið að umferðaröryggi vegfarenda í þéttbýli og dreifbýli. Áhersla verði á leiðir barna og ungmenna í daglegu lífi.
  • Unnið markvisst áfram að því í samráði við yfirvöld að efla - auka vetrarþjónustu og bæta vegakerfið í dreifbýli m.a. með bundnu slitlagi.

  Eignasjóður
  Eignasjóður heldur utanum eignir sveitarfélagsins og er fjármagnaður með innri leigu. Miklu skiptir að eignum sveitarfélagsins sé vel við haldið og að unnið sé eftir tímasettri áætlun um uppbyggingu og endurnýjun húsnæðis í eigu sveitarfélagsins í takt við starfsemina.

  Við viljum að í Múlaþingi verði

  • ráðist í nauðsynlegar endurbætur á fasteignum og öðrum eignum sveitarfélagsins og gerð verði áætlun um lausn húsnæðisvanda skóla sveitarfélagsins og unnið samkvæmt henni á næstu árum

Austurlistinn

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.