Sigrún Blöndal

Málefni sem mér eru hugleikin:

  • Málefni barna og ungmenna
  • Skólamál
  • Fjölbreytt tækifæri til tómstunda og náms (íþróttir, tónlistarskólar, ýmislegt annað starf sem höfðar til barna og unglinga)
  • Skapandi starf fyrir eldri borgara
  • Tækifæri íbúa sveitarfélagsins alls til að sinna tómstundum af ýmsu tagi
  • Tækifæri til háskólanáms á svæðinu
  • Fjölbreytt atvinnulíf á svæðinu öllu
17. sæti

Menntun

Ég er uppalin á Hallormsstað en flutti 12 ára til Hafnarfjarðar þar sem ég bjó í 13 ár. Ég lauk grunnskóla þar og gekk svo í Flensborgarskólann. Fór í Kennaraháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 1988. Hélt áfram í Háskóla Íslands þar sem ég lagði stund á nám í dönsku og bókmenntafræði.

Fjölskylda

Ég bý á Egilsstöðum með manninum mínum, Birni Sveinssyni útibússtjóra Verkís. Saman eigum við tvö börn, Sigurlaugu og Svein og fyrir átti Björn dæturnar Sif og Mörtu.

Starfsferill

Fimm sumur vann ég á Hótel Eddu á Hallormsstað en vann líka önnur störf á sumrin, m.a. í garðyrkjustöð í Laugarási í Biskupstungum, hjá Skógræktarfélagi Íslands og Skógrækt ríkisins og eitt sumar var ég í afleysingum á Veðurstofu Íslands. Eitt sumar vann ég í Umeå í Svíþjóð við garðyrkju.

Haustið 1990 byrjaði ég að kenna í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Þar vann ég til ársins 2010, að undanskildum tveimur árum sem ég var í fæðingarorlofi. Í ME kenndi ég fyrst og fremst dönsku en líka íslensku nokkrar annir, vann sem námsráðgjafi ein þrjú ár og var aðstoðarskólameistari síðustu þrjú árin. Ég er núna umsjónarkennari í Egilsstaðaskóla og kenni á unglingastigi.
Árið 2010 tók ég efsta sæti á lista Héraðslistans og var kjörin í bæjarstjórn. Þar sat ég til 2018, seinna kjörtímabilið í meirihluta og forseti bæjarstjórnar í tvö ár. Þennan tíma sat ég í bæjarráði en auk þess í ýmsum stjórnum og nefndum bæði á vegum sveitarfélagsins og líka á vegum SSA, en ég var formaður samtakanna í 4 ár. Ég sat sem fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í Stjórnstöð ferðamála frá stofnun hennar 2015 til 2018.
Á árunum 2009 – 2020 sat ég í skólanefnd Hússtjórnarskólans á Hallormsstað, sem nú hefur aftur fengið sitt upprunalega nafn, Hallormsstaðaskóli.

Áhugamál

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega flink við að eiga áhugamál. Vinnan hefur yfirleitt nægt mér og svo fjölskyldan og heimilið. Skýrslur og fundargerðir voru aðalviðfangsefnið í frítímum síðasta áratug og oft hafa helgarnar verið nýttar til verkefnayfirferðar. Ég reyni þó alltaf að lesa bækur inn á milli og fylgist talsvert með samfélagsumræðu. Ganga í skóginum á Hallormsstað er svo hin besta heilsubót.


Austurlistinn

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.