Mennta- og menningarmál Umhverfis- og loftslagsmál Jafnréttismál
10. sæti
Menntun
Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og eftir það lá leiðin í íslenskunám við Háskóla Íslands. Ég hóf svo nám í kennslufræðum en haustið 2018 hélt ég utan til Lundúna til að leggja stund á meistaranám í miðaldafræðum við King‘s College London. Ég flutti aftur til Borgarfjarðar vorið 2020 ásamt kærastanum mínum, Óttari Má Kárasyni, sem er innfæddur Borgfirðingur. Við sinntum síðasta hluta námsins í fjarnámi og unnum meistaraverkefnin okkar á efri hæðinni í Fjarðarborg það sumar. Ég skrifaði reyndar síðasta hlutann í minni ritgerð í skálavörslu í Breiðuvík!
Áhugamál
Ég stundaði nám í klassískum söng við Tónlistarskóla Kópavogs á árunum 2008-2016 og lauk þaðan framhaldsprófi. Ég tók virkan þátt í starfi Kórs Menntaskólans við Hamrahlíð öll mín menntaskólaár og með Hamrahlíðarkórnum árin 2006-2015. Meðfram náminu úti í London söng ég með óperufélagi skólans, King’s Opera, og sat í stjórn félagsins. Núna syng ég að sjálfsögðu með Bakkasystrum á Borgarfirði ásamt því að lauma mér í verkefni með sönghópum á héraði.
Starfsferill
Meðfram háskólanámi starfaði ég sem frístundaleiðbeinandi hjá frístundamiðstöðinni Frostaskjóli í Reykjavík, þar sem ég vann að mestu sem stuðningsfulltrúi barna á einhverfurófi. Ég sinnti einnig jafningjaráðgjöf í Ritveri Menntavísindasviðs Háskóla Íslands um tíma og hélt utan um vinnustofur fyrir meistaranema. Ég kenndi íslensku við Borgarholtsskóla veturinn 2016-2017. Síðastliðið ár hef ég kennt í fullu starfi við grunnskólann. Samhliða því hef ég séð um íslenskunámskeið á vegum Austurbrúar fyrir íbúa af erlendum uppruna á Borgarfirði, unnið að háskólasamstarfi UHI og Múlaþings og tekið þátt í rekstri Já Sæll í Fjarðarborg á sumrin.