Skip to main content

Skógarauðlind Austurlands

5 skuli 600x800Um það bil 40 ár eru nú frá því að lögð voru fyrstu drög að sérstöku skógræktarátaki á Fljótsdalshéraði fyrir atbeina ríkisins og með þátttöku bænda og annarra landeiganda. Verkefnið fékk nafnið Héraðsskógar. Áður hafði verið stofnað til nytjaskógaverkefnis á Upphéraði sem nefndist Fljótsdalsáætlun og hófst með gróðurssetningu árið 1970. Þá eru á svæðinu þjóðskógar og fjöldi skógarteiga skógræktarfélaga ásamt náttúrulegum birkiskógum sem finna má víða um landshlutann.

Margir gera sér ekki grein fyrir hve mikil auðlind er verða til næstu áratugi í skógum á Austurlandi. Leiða má líkum að frá árinu 1970 sé búið að gróðursetja til a.m.k. 10.000 hektara af skógi. Þessir ræktuðu skógar eru að vaxa um 70.000 tonn á ári. Til að setja tölur í samhengi í magni þá var landað árið 2019 tæplega 31 þúsundi tonnum af þorski í höfnum á Austurlandi.

Til að gera sér grein fyrir verðmætamyndun sem er í þessari vaxandi auðlind Austurlands þá eru til forsendur í ýmsum gögnum.

Í hverjum hektara (ha) af ræktuðum skógi á Austurlandi geta átt við eftirfarandi forsendur:
• Kolefnisbinding eru um 7,1 tonn/ha að meðaltali.
• Viðarvöxtur er a.m.k. 6,4 tonn/ha að meðaltali.
• Algengt verð á kolefnisbindingu í Evrópu eru 45 til 50 evrur tonnið.
• Við lok vaxtarlotu (tími frá gróðursetningu til lokahöggs) standa um 350 til 380 tonn nytjaviðar á hverjum hektara

Ef við notum ofangreindar forsendur og miðað er við að vaxtarlotan sé 60 ár þá er skógurinn á hverjum hektara að búa til verðmæti í kolefnisbindingu kr. 2,5 milljónir og ef við gefum okkur að nauðsynlegar grisjanir standi undir kostnaði þá stendur eftir höfuðstólinn þ.e.a.s. 380 tonn/ha með varlega áætluðu verðmæti kr. 4,2 milljónir. Miðað við gefnar forsendur þá er hver hektari af ræktuðum skógi að búa til verðmæti kr. 112.000,- á ári og það á landi sem alla jafna væri ekki verið að nýta til annarrar framleiðslu. Hægt er að leggja áherslu á að rækta þær tegundir trjáa sem vaxa tvöfalt til þrefalt meira en ofangreind meðaltöl miða við.

Mörgum finnst nóg um þessa miklu aukningu á skógrækt á svæðinu sem er sjónarmið ekki óeðlilegt þar sem flest okkar eru að upplifa breytingu á ásýnd lands. Við höfum flest alist upp við skógleysi umhverfisins en ef tölur eru skoðaðar þá eru gróðursettir skógar á Austurlandi á um 0,02% af láglendi. Samkvæmt margsamþykktum þingsályktunum á Alþingi þá skal stefna að því að rækta skóg á a.m.k. 5% láglendis.

Vonandi varpa þessar hugleiðingar ljósi á þá auðlind sem við eigum í ört vaxandi skógarauðlind. Þeir sem vilja skoða málið nánar bendi ég á grein sem ég skrifaði í tímaritið Gletting 1. tbl. 2020 um Bændaskógrækt á Austurlandi.

Skúli Björnsson skipar 5. sæti Austurlistans í kosningu til sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðar eystri, Djúpavogs, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar.