Eftir skólagöngu í skólum Seyðisfjarðar lá leiðin í Menntaskólann á Egilsstöðum þar sem ég útskrifaðist af félagsfræðibraut árið 2005. Eftir tveggja ára námspásu fór ég í Háskóla Íslands þar sem ég útskrifaðist með B.Ed. í grunnskólakennarafræðum og seinna með M.Ed. úr sama námi
Starfsferill
Starfsferill minn er fjölbreyttur og skemmtilegur en ég hef unnið við ýmis störf og var mitt allra fyrsta starf útburður blaða þegar ég var 11 ára gömul. Síðan hafa bæst við ýmis störf líkt og knattspyrnuþjálfun, hefðbundin bæjarvinna, fiskvinnsla, vinna í mötuneyti, umönnun á hjúkrunarheimilum, umönnun á heimili fyrir einstaklinga með fötlun, deildarstjórn á leikskóla og núna vinn ég sem umsjónarkennari á unglingastigi í Seyðisfjarðarskóla. Þá sat ég í velferðarnefnd Seyðisfjarðar frá 2014 fram að sameiningu og var ég formaður nefndarinnar síðustu tvö árin. Ég var einnig varamaður í bæjarstjórn frá 2018 fram að sameiningu og sat raunar í bæjarstjórninni mestan hluta þess tíma.
Fjölskyldan
Ég er gift Ágústi Magnússyni og erum við búsett á Seyðisfirði með börnunum okkar þremur; Sindra Roberti, sem ég var svo heppin að fá í líf mitt þegar við Ágúst hefjum okkar samband, Lilju Bryndísi og Björgvin Ómari.
Áhugamál
Mín helstu áhugamál hafa alltaf verið íþróttir almennt, sér í lagi fótbolti, og tónlist. Sem krakki og unglingur æfði ég allar íþróttir sem ég boði voru hér á Seyðisfirði og í dag eiga hlaup hug minn allan. Tónlist og söngur hefur einnig skipað stóran sess í mínu lífi og er það eitt af því sem að tengir okkur hjónin hvað mest saman. Ég er alltaf með virkt útsaumsverkefni sem að hefur einstaklega róandi áhrif á mig. Ég hef mikinn áhuga á samfélagsmálum almennt og hefur mér ávallt þótt mikilvægt að vera virkur þátttakandi í samfélaginu og að gefa tilbaka til samfélagsins sem ég hef m.a. annars gert með setu í ýmsum félagasamtökum. Fyrst og fremst gefur mér þó ekkert meira en góðar fjölskyldustundir. Það er það sem lífið snýst um.