Stefnuskrá

 • Byggðaráð

  Atvinnumál – Fjármál – Stjórnsýsla – Byggðamál – Markaðs- og kynningarmál – Menning

  Atvinnumál

  Austurlistinn lítur á það sem höfuðverkefni í nýju sveitarfélagi að styrkja enn frekar búsetuskilyrði í öllum byggðum sveitarfélagsins með vandaðri þjónustu og uppbyggingu innviða til sjávar og sveita. Við eigum fjölbreytt samfélög sem eru góður búsetukostur fyrir einstaklinga og fjölskyldur á öllum aldri. Fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf er undirstaða allra samfélaga. Austurlistinn vill að nýtt sveitarfélag sé reiðubúið að auka aðstoð við atvinnuuppbyggingu og styðja þannig við verkefni sem skila tekjum í framtíðinni, draga að ný og fjölbreytt störf í starfandi fyrirtækjum eða nýjum sprotafyrirtækjum.
  Í nýju sveitarfélagi eru víða kjöraðstæður til matvælaframleiðslu og Austurlistinn vill að sjálfbær matvælaframleiðsla með gæða afurðum verði áfram undirstaða búsetu til sjávar og sveita. Þá er mikilvægt að fullvinnsla matvæla verði í auknum mæli til í sveitarfélaginu.


  Austurlistinn vill

  • að mótuð sé atvinnustefna fyrir sveitarfélagið.
  • að ráðið verði í starf verkefnastjóra sem sinnir verkefnum á sviði atvinnu- og nýsköpunar í nýju sveitarfélagi.
  • að komið sé á skrifstofu atvinnumála þar sem verkefnastjóri vinni að uppbyggingu atvinnulífs í samstarfi við fyrirtæki og fjárfesta.
  • að unnið verði að því að tryggja að í öllum samfélögum sveitarfélagsins verði blómlegt atvinnulíf og byggð til framtíðar.
  • að horft verði markvisst á að fjölga atvinnutækifærum kvenna í sveitarfélaginu.
  • standa vörð um opinber störf í sveitarfélaginu og leita leiða með stjórnvöldum til að fjölga þeim í samræmi við stefnu stjórnvalda um störf án staðsetningar.
  • að sérstök áhersla verði á störf án staðsetningar og sveitarfélagið bjóði uppá tæknileg skilyrði og starfsaðstöðu fyrir slík störf í öllum byggðakjörnum og víðar í sveitarfélaginu.
  • að áhersla verði á frekari matvælaframleiðslu og nýsköpun til sveita.
  • að markaðssetning Egilsstaðaflugvallar verði efld í samstarfi við eigendur (ISAVIA) og hann verði kynntur fyrir flugfélögum og ferðaskrifstofum sem umhverfisvænn millilandaflugvöllur á ferð til og frá Íslandi.
  • að hafist sé handa við fyrirhugaða uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli sem varaflugvallar og unnið verði með Isavia og atvinnulífinu að framtíðarskipulagi og uppbyggingu á flugvallarsvæðinu.
  • að barist verði fyrir hagsmunum sjávarbyggða sveitafélagins varðandi hlutdeild í byggðakvóta og frekari eflingu strandveiða ásamt því að tryggð verði áframhaldandi línuívilnun.
  • að innan sveitarfélagsins verði til staðar tæknigarður í samstarfi við atvinnulíf og rannsóknarstofnanir.
  • styðja við nýsköpun í landbúnaði.
  • styðja við að komið verði á örsláturhúsi auk færanlegs sláturhúss.

  Fjármál


  Öguð fjármálastjórn er forsenda þess að nýtt sveitarfélag geti blómstrað til framtíðar. Með upplýsingagjöf og opnu ferli gefst íbúum færi á að beita aðhaldi og vera meðvitaðir um rekstur og stöðu sveitarfélagsins hverju sinni. Gæta þarf aðhalds og mikilvægt er að hafa góða yfirsýn í rekstri sveitarfélagsins.


  Austurlistinn vill

  • að sérstaklega verði þrýst á og tryggð hlutdeild í sértekjum sem ríkissjóður innheimtir af atvinnulífi og auðlindum í sveitarfélaginu s.s. í ferðaþjónustu og fiskeldi.
  • að tekjur og samningar af auðlindum og eignum utan íbúðarhúsnæðis í eigu sveitarfélagsins verði yfirfarnir og uppfærðir.
  • að tryggt verði að samræming og yfirfærsla kerfa og vinnslu í fjármálum eldri sveitarfélaga til þess nýja verði vönduð og lausnamiðuð.
  • að unnið sé eftir áætlunum í verkefnum svo ekki sé farið langt út fyrir kostnaðarviðmið hvers verkefnis.

  Stjórnsýsla

  Stjórnsýslu er ætlað að þjónusta íbúa sveitarfélagsins og mikilvægt að viðhöfð séu fagleg vinnubrögð, erindum sé svarað fljótt og að ákvarðanir séu teknar út frá almennum og faglegum forsendum. Það er eilíft verkefni stórs sveitarfélags að gæta jafnræðis í hvívetna og til þess þarf að tyggja að raddir minni byggðarkjarna og dreifbýlis heyrist.
  Stjórnsýsla sveitarfélagsins þarf að vera öflug, einföld og skilvirk og ákvarðanir skýrar og vel rökstuddar. Byggja skal á jafnræði íbúa og skýrum reglum. Verkefni sveitarstjórnar er að marka skýra stefnu í upphafi og horfa til framtíðar.


  Austurlistinn vill

  • að núverandi starfsmenn og mannauður sveitarfélagsins gegni lykilhlutverki í því vandasama ferli sem framundan er við sameiningu sveitarfélaganna fjögurra.
  • að stjórnsýsla nýs sveitarfélags sé gagnsæ og tæknivædd. Við viljum innleiða rafræna stjórnsýslu og tryggja íbúalýðræði með áherslu á hagsmuni íbúa í sveitum.
  • tryggja heimastjórnir í sessi. Heimstjórnir þurfa að hafa ákveðið fjármagn og geta tekið fullnaðarákvarðanir um smærri mál á heimasvæði. Heimastjórnir tengi saman íbúa og sveitarstjórn, haldi reglulega íbúafundi þar sem íbúum gefst kostur á að koma að forgangsröðun verkefna hjá sveitarfélaginu og spyrja út í rekstur og ákvarðanir.
  • að vandað verði til nýrrar skilgreiningar á hlutverki og starfi nefnda sveitarfélagsins þannig að þær verði valdefldar og hafi aukið vægi.
  • að sérstök stjórn fari með stjórn og uppbyggingu hafna og verði þannig nauðsynlegt bakland hafnarstjóra og starfsmanna hafna.
  • að sérstök stjórn haldi utan um málefni og rekstur hitaveitu, vatns- og fráveitu.

  Byggðamál


  Íbúafjölgun hefur ekki verið hagstæð á Austurlandi en Hagstofa Íslands spáir fólksfækkun á Austurlandi í nánustu framtíð. Mikilvægt er að bregðast við því með eflingu innviða og öflugum kynningarmálum þar sem lífsgæði í byggðakjörnum nýs sveitarfélags eru kynnt landsmönnum. Mikilvægt er að stuðlað verði að fjölgun íbúa í öllum byggðakjörnum.


  Austurlistinn vill

  • skýra byggðastefnu innan sveitarfélagsins þar sem lögð er sérstök áhersla á málefni dreifbýlis og jaðarsvæða.
  • vinna með Byggðastofnun og ríkisvaldi í verkefnum og lausnum sem geta tryggt blómlega byggð á þessum svæðum.
  • að samgöngur verði bættar með þeim hætti að Austurland verði eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Mikilvægt er að hafist verði handa við göng undir Fjarðarheiði og heilsársveg um Öxi.
  • að gert sé hættumat vegna náttúruhamfara og afleiðinga þeirra í sveitarfélaginu.
  • stórefla almannavarnir og auka skilning stjórnvalda á almannavarnarkerfinu þannig að almannavarnir hafi burði til að sinna sviðsmyndagerð, áhættumati og áætlanagerð samhliða því að þróa og bæta kerfi viðbragðsaðila.

  Markaðs- og kynningarmál


  Austurlistinn vill

  • að unnin verði markaðsáætlun þar sem nýtt sameinað sveitarfélag verði markaðssett sem fjölskylduvænt og gott samfélag til búsetu.
  • að unnin verði markaðsáætlun fyrir hafnir sveitarfélagsins sem starfa í samkeppnisumhverfi.

  Menning


  Blómlegt menningarlíf endurspeglar samfélagið og veitir íbúum og gestum þess lífsfyllingu. Menning og listir hafa í gegnum tíðina verið aðalsmerki og helsta sérkenni Seyðisfjarðar og víðar í sveitarfélaginu. Það þarf að hlúa vel að þeim samfélagslegu verðmætum sem í menningunni felast. Austurlistinn vill leggja aukinn þunga á menningarmál sem atvinnumál og fara í vinnu með stjórnvöldum að finna leiðir til þess að tryggja rekstur mikilvægra menningarstofnana og listahátíða í sveitarfélaginu auk þess að efla störf listamanna í samfélögum okkar.


  Austurlistinn vill

  • efla fjölbreytt lista- og menningarstarf fyrir alla aldurshópa.
  • að í boði séu viðburðir og hátíðir á ársvísu og mótuð sé markviss og skýr stefna um aðkomu sveitarfélagsins að þeim.
  • að unnin verði vönduð menningarstefna fyrir sveitarfélagið.
  • tryggja að viðeigandi húsnæði fyrir sviðslistir og aðra listastarfsemi sé til staðar sem víðast í sveitarfélaginu.
  • tryggja til framtíðar rekstur menningarmiðstöðva og menningarhúsa með samningum við opinbera aðila og aðra samstarfsaðila.
  • styðja við gott samstarf milli menningar, lista og skólastarfs á öllum skólastigum.styðja við málefni minjasafna, varðveislu sagnaarfs og þess góða menningarstarfs sem innleiðing Cittaslow hefur haft í för með sér.
 • Velferðar- og fjölskylduráð

  Fræðslumál – velferð íbúa – íþróttir og tómstundir – mannréttindi - menning

  Fræðslu- og menntamál

  Austurlistinn veit að gott skólastarf er undirstaða og fjöregg allra samfélaga í sveitarfélaginu. Börn eiga að fá menntun, þjónustu og aðbúnað við hæfi hvers og eins innan leik- og grunnskóla, í öllum byggðakjörnum sveitarfélagsins. Nám á háskólastigi á Austurlandi er byggðamál sem Austurlistinn vill taka föstum tökum. Því viljum við leita nýrra leiða við að byggja upp háskólamenntun í nýju sveitarfélagi. Jafnvel í samstarfi við erlenda háskóla. Slíkt væri stór áfangi í að auka lífsgæði og efla mannauð á Austurlandi og þá fjölga um leið valkostum í námi á háskólastigi. Mikilvægt er í nýju sveitarfélagi að auka vægi tæknigreina í öllu skólastarfi og stuðla að því að rannsóknir og nýsköpun eflist á öllu Austurlandi. Tryggja þarf áfram gott framboð á endurmenntun og fjarnámi og hafa til þess góða námsaðstöðu í öllum byggðakjörnum.

  Austurlistinn vill

  • standa þétt að baki allra skólastofnana í sveitarfélaginu, faglega og fjárhagslega.
  • að börnum sé tryggð viðeigandi þjónusta þegar þau standa frammi fyrir andlegri vanlíðan, geðrænum vanda eða alvarlegum námsörðugleikum.
  • koma til móts við þarfir barnafólks með fjölbreyttum leiðum í dagvistunarúrræðum frá 12 mánaða aldri.
  • að sveitarfélagið bjóði upp á öflugt frístundastarf í grunnskólum sveitarfélagsins og tengi það íþrótta- og tómstundastarfi með það að markmiði að ná enn frekar samfellu í vinnudag barna.
  • bæta starfsumhverfi svo að það verði í takt við þarfir starfsfólks og nemenda skólanna.
  • mynda fjölbreyttar brýr á milli nemenda, foreldra, starfsfólks og menningar- og atvinnulífs jafnt innan sem á milli samfélaga í nýju sveitarfélagi.
  • sjá skýra mynd af framtíðarþörf skólastofnana og áætlun um uppbyggingu og fjárfestingar á húsnæði og innviðum.
  • tryggja rekstur Lunga skólans á Seyðisfirði og Hallormsstaðaskóla til lengri tíma og styðja við áframhaldandi þróun og vöxt þeirra.
  • að boðið verði upp á fjölbreytt háskólanám og námsdvöl á Austurlandi í nánu samstarfi við erlenda- og/eða innlenda háskóla.
  • að í sveitarfélaginu verði öflugur stuðningur við nýsköpun og rannsóknir.
  • efla þverfaglegt samstarf og samnýta mannauð milli skóla og byggðarkjarna.
  • vinna að fjölskyldustefnu með skýra sýn á sérstöðu hvers byggðarkjarna.
  • að leikskólagjöld verði í samræmi við stefnu um fjölskylduvænt samfélag og sérstöðu hvers samfélags.
  • efla móðurmálskennslu fyrir tvítyngd börn og íslenskukennslu fyrir erlenda íbúa.
  • að skólasamfélagið sé með aðgerðaáætlun fyrir nemendur og foreldra af erlendum uppruna.
  • skoða hvort að sveitarfélagið haldi í framtíðinni sjálft utan um þau verkefni sem eru nú hjá Skólaskrifstofu Austurlands. Brýnt er að efla þá þjónustu og stytta biðtíma eftir þjónustu.

  Velferð

  Grunnheilbrigðisþjónusta í öllum samfélögum sveitarfélagsins er lífsnauðsynlegt öryggisatriði fyrir íbúa og gesti, ekki síst vegna ótryggra samgangna yfir vetrartímann og fjarlægðar frá sjúkrahúsum. Tryggja þarf að heilbrigðisþjónusta sé í samræmi við þarfir íbúa og gesta á öllum stöðum sveitarfélagsins á öllum tímum. Þá þarf að tryggja að innviðir séu til staðar þ.m.t. bílakostur og þekking til sjúkraflutninga. Félagsþjónustu sveitarfélagsins þarf að sníða að þörfum íbúa í hverju samfélagi fyrir sig og tryggja þar viðeigandi mannauð og þjónustustig. Hugað verði sérstaklega að þjónustu við aldraða íbúa og gerð úttekt á þjónustuþörf og húsnæðisþörf þeirra. Unnið verði að frekari uppbyggingu félagslegs húsnæðis í samræmi við fyrirliggjandi húsnæðisáætlanir fyrrum sveitarfélaga.

  Austurlistinn vill

  • að nýtt sveitarfélag verði leiðandi í velferðarþjónustu á landsbyggðum.
  • að í byggðarkjörnum sveitarfélagsins sé í boði fjölbreytt búsetuúrræði.
  • að upplýsingagjöf á sviði velferðar- og félagsþjónustu sé skýr og markviss og berist til þeirra er þurfa á aðstoð að halda.
  • að í sveitarfélaginu verði unnin forvarnarstefna í samstarfi við hlutaðeigandi aðila. Þá sé forvarnarstefnu kaflaskipt fyrir börn upp að 18 ára aldri og svo fyrir eldri hópa.
  • að aldraðir íbúar sveitarfélagsins fái alla þá þjónustu sem þeir eiga rétt á og þar með talið viðeigandi lausnir í búsetumálum.
  • að á starfsstöð HSA á Egilsstöðum verði til staðar lágmarks búnaður og þekking til móttöku á alvarlega veikum og slösuðum sjúklingum.
  • tryggja þjónustu sérfræðilækna á fjölbreyttum sviðum og einnig auka veg fjarlækninga þar sem því verður við komið til að íbúar geti notið heilbrigðis- og læknisþjónustu í heimabyggð.
  • að unnið verði eftir fyrirliggjandi húsnæðisáætlun frá fyrrum sveitarfélögum og sú áætlun síðan samræmd og sameinuð í heildaráætlun fyrir nýtt sveitarfélag.
  • að byggðar verði félagslegar íbúðir sem dreifist á alla byggðakjarna samkvæmt þarfagreiningu og tillögum í núverandi húsnæðisáætlunum byggðarkjarna og að gerð verði áætlun um byggingu þjónustuíbúða fyrir aldraða.
  • að rekið verði óhagnaðardrifið fasteignafélag sem byggi og sjái um rekstur íbúða í sveitarfélaginu út frá skilgreindum þörfum sveitarfélagsins um félagslegar íbúðir.
  • bæta aðgengi fyrir fatlaða í sveitarfélaginu en aðgengismál eru víða algjörlega óásættanleg.
  • að áfram verði unnið að því að efla Austurlandslíkanið sem byggir á heildstæðri sýn í félags- og velferðarmálum og það verði nýtt í öllum samfélögum sveitarfélagsins.
  • leita leiða til að auka samstarf félagsþjónustu sveitarfélagsins og heilbrigðisþjónustunnar íbúum okkar til hagsbóta.

  Íþróttir og tómstundir

  Íþróttir, tómstundir og félagsstarf eru stór þáttur af lífsgæðum okkar. Starfið og þátttakan efla andann, styrkja líkama og auka samkennd og félagsvitund allra er koma nærri. Í félögum og klúbbum sveitarfélagsins er víða unnið frábært starf sem Austurlistinn vill styðja og efla. Austurlistinn vill að sveitarfélagið verði heilsueflandi samfélag en góð reynsla er af verkefninu. Við viljum gera lýðheilsuáætlun í samstarfi við heilbrigðisaðila og aðra hluteigandi aðila um það hvernig bæta megi lýðheilsu íbúa í sveitarfélaginu.

  Austurlistinn vill

  • fjölga iðkendum á öllum aldri í íþrótta- og tómstundastarfi.
  • tryggja jafnrétti sem leiðarstef í öllu íþrótta- og tómstundastarfi.
  • flétta fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf betur inn í vinnudag yngstu bekkja í grunnskóla.
  • tryggja öllum börnum aðgang að íþrótta- og tómstundastarfi án tillits til efnahags.
  • styðja við sameiginlegt íþróttastarf innan sveitarfélagsins meðal annars með frístunda-/ ferðastyrk.
  • bjóða upp á skipulagðar samgöngur í íþróttir og tómstundir í góðu samstarfi við framkvæmdaaðila.
  • að unnin verði lýðheilsu- og forvarnaráætlun fyrir sveitarfélagið.
  • að allt starf og kynning á vegum sveitarfélagsins taki mið af því að sveitarfélagið er heilsueflandi samfélag. 
  • að unnið verði eftir samþykktri áætlun varðandi uppbyggingu og endurnýjun íþróttamannvirkja.
  • sameiginleg aðgangskort, m.a. í íþróttamiðstöðvar og sundlaugar sveitarfélagsins.
   efla starfsemi skíðasvæðisins í Stafdal.

  Mannréttindi og samfélag

  Austurlistinn leggur áherslu á að jafnrétti og önnur mannréttindi séu virt í starfi og leik. Við viljum sveitarfélag þar sem íbúar eru jafnir án tillits til kyns, þjóðernis, trúar, aldurs, fötlunar, fjárhags eða annarrar stöðu. Mikilvægt er að gerð verði í öllum samfélögum móttökuáætlun fyrir nýja erlenda íbúa en þeir eru samfélaginu verðmætir. Brýnt er að þeim verði gert kleift að aðlagast og una hag sínum vel í nýju sveitarfélagi. Það er forgangsverkefni Austurlistans að búa sveitarfélagið og samfélög þess þannig úr garði að fjölskyldur og einstaklingar sjái sér hag í því að setjast hér að. Við viljum fjölga íbúum og hlúa vel að barnafjölskyldum.

  Austurlistinn vill

  • að sveitarfélagið vinni að og sæki um jafnlaunavottun.
  • að sveitarfélagið verði fjölskylduvænn vinnustaður.
  • að aðgengismál í öllum samfélögum verði bætt.
  • fylgja eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
  • gera móttökuáætlun fyrir nýja erlenda sem og innlenda íbúa.
 • Umhverfis- og framkvæmdaráð

  Eigna- skipulags- og umhverfishluti Umhverfisstefna – sjálfbært sveitarfélag - skipulagsmál - samgöngur - veitur þjónustumiðstöðvar - eignasjóður - rekstur, viðhald og nýframkvæmdir - hafnir og rekstur

  Markmið og leiðir

  Umhverfisstefna – sjálfbært sveitarfélag Austurlistinn vill að nýtt sveitarfélag verði í fararbroddi í umhverfismálum og auki sjálfbærni innan allra byggðakjarna. Í áætlanagerð og aðgerðum verði stuðst við sóknaráætlun Austurlands og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun

  Í nýju sveitarfélagi

  • Er lögð áhersla á snyrtilega og fagra ásýnd allra byggðakjarna.
  • Er kolefnisjöfnun efld með aukningu nýskógræktar og markvissri nýtingu skóga.
  • Er hvatt til verkefna á sviði vistvænna orkugjafa, vistvæns landbúnaðar og annars konar sjálfbærni í atvinnulífi og samfélagi og þau studd.
  • Er tryggt að mannvirki og framkvæmdir tengdar orkuframleiðslu séu í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins m.a. varðandi umhverfisáhrif, þ.m.t. áhrif á íbúa sveitarfélagsins og varanlega áhrif á ósnortnar víðáttur.
  • Er tryggt að umhverfisáhrif af völdum starfsemi í sveitarfélaginu verði vöktuð og unnið að úrbótum í þágu umhverfis og náttúru í samstarfi við atvinnulíf, þar sem þörf er á.
  • Er lögð áhersla á að sorphirða í sveitarfélaginu verði til fyrirmyndar á sviði flokkunar, endurvinnslu og jarðgerðar.

  Skipulagsmál

  Með nýju aðalskipulagi sveitarfélagsins, sem unnið verður í opnu ferli, vill Austurlistinn að mynduð sé skýr stefna um náttúruvernd og landnotkun í samráði við landeigendur og íbúa sveitarfélagsins. Austurlistinn vill að öryggis- og almannavarnamál verði forgangsmál í nýju sveitarfélagi.

  Í nýju sveitarfélagi.

  • Er strax hafin vinna við nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið allt.
  • Er unnið að niðurstöðu um starf og skipan Almannavarnanefnda í samráði við þar til bær yfirvöld
  • Er lögð áhersla á að unnið sé alhliða hættumat í nýju sveitarfélagi og áætlanir út frá því.
  • Er unnið áfram að uppbyggingu snjóflóðamannvirkja á Seyðisfirði
  • Er hugað að áhrifum og úrbótum út frá nýju hættumati varðandi skriðuföll í nágrenni byggðar á Seyðisfirði.
  • Er unnið skipulag í anda sjálfbærrar þróunar. Gert er ráð fyrir skynsamlegri landnýtingu, góðum almenningssamgöngum, hjólastígum og blómlegu mannlífi.
  • Er leitað leiða til að nýta mannvirki á ofanflóðahættusvæðum eða þar til gerð yfirvöld skipuleggi uppkaup og svæðunum verði lokað.
  • Eru æskilegar gönguleiðir og slóðar skilgreindir og áætlun um endurbætur og merkingar gerðar í samstarfi við landeigendur og hagsmunaaðila.
  • Hefur skrifstofa umhverfisráðs umsjón með öflugu samráði forstöðumanna á umhverfis og framkvæmdasviði.
  • Er afgreiðsla í skipulags- og byggingarmálum gegnsæ og fljótvirk og ráðgjöf og samskipti við umsækjendur í samræmi við kröfur og samþykktir efld.

   Samgöngur

  Greiðar samgöngur innan Austurlands eru lífæð íbúa og atvinnulífs alla daga ársins. Nýjar tengingar um Fjarðarheiðargöng og gerð heilsársvegar um Öxi auk endurbóta á Borgarfjarðarvegi eru forsendur jákvæðrar þróun í öllum byggðakjörnum. Mikilvægt er að halda því á lofti alla daga og vinna ötullega áfram með yfirvöldum og stofnunum að framkvæmdum sem efla samgöngur innan sveitarfélagsins.

  Í nýju sveitarfélagi

  • Er unnið að skipulagi, þróun og framtíðaráformum varðandi Egilsstaðaflugvöll í samstarfi við Isavia og hagsmunaaðila.
  • Eru vistvænar samgöngur settar í forgang.
  • Er unnið með viðeigandi aðilum að því að farsímasamband og tetrakerfi sé bætt og þjóni öryggis og samskiptahlutverki sínu vegna búsetu og ferðaleiða í sveitarfélaginu.
  • Er unnið að umferðaröryggi vegfarenda í þéttbýli og dreifbýli og gerð áætlun um úrbætur þar á. Áhersla verði á leiðir barna og ungmenna í daglegu lífi.
  • Er unnið eftir þeirri staðreynd að samgöngur eru líka heilbrigðismál og gera þarf greiningu og þörfum og úrbótum varðandi tækjakost og bílaflota til sjúkraflutninga frá jaðarbyggðum í veg fyrir sjúkraflug eða sjúkrahús.
  • Verði lokið við ljósleiðaravæðingu og gagnaveitu.
  • Verði 3ja fasa rafmagni komið á til allra íbúa sveitarfélagsins.
  • Er unnið markvisst áfram að því í samráði við vegamálayfirvöld að leggja bundið slitlag á tengivegi í sveitarfélaginu og bæta vegakerfið í dreifbýli.

  Veitur

  Í nýju sveitarfélagi

  • Er fráveita í sveitarfélaginu verði í samræmi við kröfur og þarfir nútímans.
  • Er gerð úttekt á veitukerfum og jafnframt tímasett framkvæmdaáætlun um endurnýjun og nýframkvæmdir allra veitna til 5 ára.
  • Eru málefni veitna á einni hendi en áfram verði til mikilvæg þekking og mannauður úti í kjörnum og hverfum.

   Þjónustumiðstöðvar


  Austurlistinn vill að reknar verði öflugar þjónustumiðstöðvar í öllum byggðakjörnum sveitarfélagsins með tilheyrandi mannauði og tækjakosti sem sinni daglegum verkefnum
  Að vélakostur sveitarfélagsins verði vistvænni.

  Eignasjóður


  Austurlistinn vill að ráðist verði nú þegar í nauðsynlegar endurbætur á fasteignum og öðrum eignum sveitarfélagsins í samræmi við fjárfestingargreiningu sem gerð var að hálfu undirbúningsnefndar. Þar verði skilgreindar og forgangsraðað endurbótum og fjárfestingum í innviðum á Djúpavogi, Borgarfirði eystra og Seyðisfirði.

  Hafnir og rekstur


  Hafnirnar í sveitarfélaginu eru meðal helstu lífæða samfélaganna og þær ber að umgangast sem slíkar. Um þær fer hráefni til matvælaframleiðslu, inn- og útflutningsvörur og ferðamenn sem er undirstaða margra starfa til sjós og lands.Góður áframhaldandi rekstur hafna í sveitarfélaginu er mjög mikilvægur og huga verður sérstaklega að því að halda áfram öflugri starfsemi, markvissri uppbyggingu og frekari markaðssetningu þeirra.

  Í nýju sveitarfélagi

  • Verða hafnir áfram styrkar stoðir atvinnu- og mannlífs í sjávarbyggðum og byggðar upp með þá þjónustu og innviði sem samfélag og atvinnulíf krefst.
  • Eru öryggismál á hafnarsvæðum eins og best verður á kosið sem og umgengni um þær og hafnarsvæði allt sé til fyrirmyndar.
  • Er umhverfismál áherslumál í höfnum sveitarfélagsins og unnið verði áfram að því að bjóða upp á landtengingu við rafmagn fyrir skemmtiferðaskip og Norrænu.
  • Er sérstök hafnastjórn skipuð sem fer með málefni hafna í samstarfi við hafnarverði og aðra starfsmenn í hverri höfn.
  • Er unnin frekar að stefnumótun og áætlanagerð varðandi rekstur og markaðssetningu hafna og atvinnutengdrar starfsemi við hafnir sveitarfélagsins.
  •  
 • Heimastjórnir

  Sterkar heimastjórnir tryggja góða nærþjónustu.
  Austurlistinn vill að heimastjórnir fái vel skilgreint hlutverk, vald til að taka ákvarðanir í nærumhverfinu og fjármagn til að vinna verkefni í sínu byggðarlagi.

  Austurlistinn vill:

  — að hver heimastjórn hafi fjárheimild til að reka þjónustumiðstöðvar á sínu starfsvæði.
  — að umhverfismál s.s. umhirða gatna, göngustíga, opina svæða, snjó og hálkuvarna sé verkefni heimsstjórna.
  — að heimastjórnir tengi saman íbúa og sveitarstjórn, haldi reglulega íbúafundi, þar sem íbúum gefst kostur á að koma að forgangsröðun verkefna hjá sveitarfélaginu og spyrja út í rekstur og ákvarðanir.
  — að heimastjórnir hafi til ráðstöfunar fjármagn í verkefni sem unnin verði eftir forgangsröðun í netkosningu íbúa hvers svæðis.
  — að hver heimastjórn fái fjármagn til að úthluta styrkjum til menningarmála í sínu byggðarlagi samkvæmt umsóknum og úthlutunarreglum.
  — að allar heimastjórnir fundi saman tvisvar til þrisvar á ári til að miðla á milli upplýsingum, þekkingu og reynslu.

  Á heimasíðu sameiningarnefndarinnar er að finna upplýsingar um allt sem varðar heimastjórnir.


Austurlistinn

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.