Eyþór Stefánsson

Málefni sem mér eru hugleikin:

  • Samgöngur og innviðir
  • Atvinnumál
  • Húsnæðismál
3. sæti

Menntun

Ég er fæddur og uppalinn á Jökuldal og foreldrar mínir búa þar ennþá og stunda sauðfjárbúskap. Ég gekk í Menntaskólann á Egilsstöðum og var þar í tvö ár en kláraði menntskólanámið frá Framhaldsskólanum á Laugum. Árið 2011 útskrifaðist ég með B.Sc. í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Fjölskylda

Ég er í sambúð með Steinunni Káradóttur en hún er sjóari. Við búum saman á Borgarfirði eystri.

Starfsferill

Meðan á skólagöngu minni stóð vann ég ýmis störf meðfram námi. Ég vann í unglingavinnu Landsvirkjunar, við stækkun stöðvarhúss Lagarfossvirkjunar hjá Íslenskum aðalverktökum og við að steypa Mjóeyrarhöfn. Ég ílengdist svo hjá verktakafyrirtækinu Héraðsverki í nokkur ár þar sem ég vann m.a. við vegagerð á Hófaskarðsleið, við gerð snjóflóðavarnargarða á Norðfirði, aurvarnir á Eskifirði og landvarnir á Kárahnjúkum svo eitthvað sé til talið.
Eftir að hafa búið nokkur ár í Reykjavík vegna skólagöngu flutti ég aftur heim á Jökuldal eftir útskrift. Skömmu síðar fékk ég tilboð um að stunda sjómennsku og gerast skipstjóri. Ég flutti því á Borgarfjörð eystri vorið 2016 og fór á sjó. Hef verið þar allar götur síðan og var kosinn í hreppsnefnd Borgarfjarðahrepps 2018. Á Borgarfirði hef ég sinnt hinum ýmsustu störfum en ásamt sjómennsku og hreppsnefndarstörfum hef ég kennt tónlist og forritun í grunnskólanum, gekk í slökkviliðið og björgunarsveitina og prufaði að beita.
Í ársbyrjun 2020 voru svo ákveðin kaflaskil í mínu lífi þegar ég hóf störf sem verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Áhugamál

Ég hef í seinni tíð spilað bridds í miklu óhófi. Ef það gerði mig ekki nógu lúðalegan þá eyði ég mjög miklum tíma, miðað við getu, í að tefla. Eina prófavertíðina í háskólanum nennti ég ekki að læra fyrir próf og fór því að kynna mér töfrabrögð. Það varð til þess að óskynsamlega miklum tíma var varið í að læra og æfa spilagaldra. Í kjölfarið byrjaði ég að safna spilastokkum. Svo finnst mér afar skemmtilegt að kafa.
Frá því ég var pjakkur hef ég spilað mikið á hljóðfæri og langtum mest á gítar. Þá finnst mér mjög gaman að lesa skáldsögur og eru fantasíur í uppáhaldi. Þá myndi ég flokkast undir það að vera svokallaður excel-pervert og hef furðumikla ánægju af því að skoða fallega samsett excel-skjal.


Austurlistinn

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.