Ásdís Hafrún Benediktsdóttir

Málefni sem mér eru hugleikin:

  • Málefni aldraðra
  • Umhverfis- og landbúnaðarmál
  • Mannlíf og samfélag
4. sæti

Menntun

Skólagangan hófst í Barnaskólanum í Beruneshreppi sem á þeim tíma var heimavistarskóli. Síðan þá hefur leiðin legið eftir krókaleiðum og með löngum hléum um hinar ýmsu menntastofnanir landsins. Ég lauk BA prófi í íslensku vorið 2015 og þá um haustið hóf ég MA nám í ritlist við Háskóla Íslands og útskskrifaðist úr því í upphafi árs 2020. Vinir og ættingjar segja að meistaragráðan skili sér aðallega í faglegum og skapandi facebookfærslum.

Fjölskylda

Ég á tvö uppkomin börn og þrjú barnabörn sem ég reyni að rækta eins og annað.

Starfsferill

Ég er alin upp í sveit og hef tekið þátt í helstu störfum sem tengjast hefðbundnum landbúnaði frá því ég man eftir mér. Nýir straumar og stefnur í tæknimálum landbúnaðarins hafa þó farið fram hjá mér að mestu enda flutti ég ung að heiman og við tók vinna í fiskvinnslu og síðan við umönnun ungra og aldraðra allt þar til ég venti mínu kvæði í kross og fór að vinna skrifstofustörf.
Ég aflaði mér fagréttinda í bókhaldi 2004 og hef unnið við það síðan. Síðustu árin í hlutastarfi meðfram náminu.
Afskipti mín af sveitarstjórnarmálum hófust vorið 2018 þegar útlit var fyrir eins lista framboð og engar kosningar í heimabyggð minni. Ég er ákafur lýðræðissinni og sannfærð um að allir eigi að geta valið um að mæta á kjörstað og nýta atkvæðisrétt sinn. Sú sannfæring og áhugi minn á félagsmálum leiddi mig inn í góðan hóp sveitunga minna sem kom fyrirvaralítið saman framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018. Síðan þá hef ég verið varafulltrúi í sveitarstjórn Djúpavogshrepps og setið í fræðslu-, tómstunda og jafnréttisnefnd sveitarfélagsins. Ég var líka varamaður í undirbúningsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra í Múlaþingi og er nú varamaður í undirbúningssjórn. Auk þess að sat ég nafnanefnd sem undirbjó könnun á nafni á nýtt sveitarfélag.

Áhugamál

Mér gengur illa að temja mér það að kapp sé best með forsjá og áhugamálin vilja verða full mörg. Í áratugi var ég ánægðust með bók í hönd en nú er áherslan meiri á ræktun, með fjölbreytni í fyrirrúmi, það sést best á litadýrð kartaflna og gulróta sem eru teknar upp haust hvert. Margir moðpokarnir hafa verið bornir á bakinu til að græða upp með þeim rofabörð og flög, stöku trjáplöntu er potað niður og einhvern veginn verður svo að allt þetta vindur upp á sig þegar ég rekst á nýjar og áhugaverðar lífverur sem mögulega gætu lifað í nágrenni við mig.
Ég er sannfærð um að mannlífið eigi að rækta líka og eins og í annarri ræktun eigum við að fagna fjölbreytni og hlúa að henni.


Austurlistinn

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.